mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Innrás íslenska hestsins í borgir Evrópu

26. janúar 2010 kl. 16:26

Berlín, Reykjavík, Akureyri

Heimsmeistaramót íslenskra hesta 2013 verður haldið í Berlín, höfuðborg Þýskalands. Á stað í útjaðri borgarinnar sem heitir Pferdesportpark Berlin Karlshorst og er keppnissvæði fyrir margskonar hestaíþróttir á hestum af hinum ýmsu kynjum. Þýskaland (IPZV, þýska Íslandshestasambandið) var eina landið sem sótti um mótið 2013. Svæðið hefur verið tekið út af FEIF og uppfyllir allar reglur og kröfur um heimsmeistaramót.

Í tilkynningu fá IPZV segir að hugmyndin sé að færa heimsmeistaramótin [sem áður hafa verið haldin í dreifbýli] inn í þéttbýlið og freysta þess að koma íslenska hestinum á nánara samband við massa og menningu heimsborgarinnar. Fjölmiðlar, samtök og stofnanir í Berlín og víðar í Þýskalandi hafi lofað stuðningi við kynningu mótinu.

Í Berlín og nágrenni búa um 5 milljónir, þannig að ekki er ólíklegt að áhorfendur á HM2013 verði fleiri en nokkru sinni fyrr. Þá má rifja upp að HM1999 í Rieden er eitt best skipulagða og best heppnaðasta HM sem haldið hefur verið.

Til gamans má svo minna á að tvö hestamannafélög í „borgum“ á Íslandi hafa sótt um að halda næstu Landsmót hestamanna, Fákur í Reykjavík LM2012 og Léttir á Akureyri LM2014. Landssamband hestamannafélaga á nú í viðræðum við Fák og niðurstaða þeirra á að liggja fyrir í lok febrúar. Reykjavíkurborg hefur lofað stuðningi við mótið. Akureyringar telja sig geta boðið upp á gott Landsmótssvæði á nýjum velli sínum fyrir ofan bæinn, þar sem einnig er risin ný og stór reiðhöll. Það lítur því út fyrir að innrás íslenska hestsins í borgir Evrópu sé hafin.