sunnudagur, 20. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ímynd okkar í kjölfar hestaflensunnar

2. júlí 2010 kl. 14:19

Ímynd okkar í kjölfar hestaflensunnar

 Á allra síðustu árum hafa samskipti fólks breyst gífurlega, umræða og fréttaflutningur fer mikið fram í gegnum netið þar sem útbreiðsla er hröð og mikil. Eðlilega hafa fréttir af því ástandi sem hefur verið hér á Íslandi í kjölfar hestapestarinnar ratað á netsíður erlendra fréttamiðla.

Við íslendingar erum misjafnlega uppteknir af því að fylgjast með hvernig fréttaflutningi er háttað af hestinum úti í hinum stóra heimi og enginn aðili hér haft það hlutverk sérstaklega að hafa áhrif á hann. 

Eiðfaxi rakst á grein sem birtist á þýskum fréttavef þar sem verið var að segja frá hestaflensunni og viðbrögðum fólks, bæði fagfólks, yfirvalda og hestamanna við þeim vágesti. 

Greinina má lesa hér

Í greininni sem er nokkuð sláandi er viðtal við tvo dýralækna á Íslandi, þau Björn Steinbjörnsson og Sussanne Braun sem eru ósammála viðbrögðum og aðgerðum Matvælastofnunar við hrossapestinni. Einnig er vitnað í Sigríði Björnsdóttur er hún hélt erindi á þýskri kynbótasýningu í Zachow í maí þar sem hún þykir gera lítið úr veikinni. Því er einnig haldið fram í greininni að Matvælastofnun hafi lagt stein í götu þeirra Björns og Susanne þegar þau upp á eigin spýtur hófu rannsóknir og komu með tillögur að meðhöndlun hrossanna.


Eiðfaxi leggur ekki mat á þann faglega ágrenning sem virðist hafa verið á milli þessara dýralækna og Matvælastofnunnar. 

 Við lestur greinarinnar er ljóst að um ágrenning er að ræða milli ákveðinna dýralækna vegna flensunnar, sem er mjög óheppilegt í eins stóru máli og þetta er.  Þegar um slíkan ágrenning er að ræða skapar það ímynd sem mun lenda í umræðunni.

Það er mjög áríðandi að upplýsingar héðan séu trúverðugar reynt sé að forðast misskilning,  svo umræðan leiðist ekki í farveg sem skaðar íslenska hestinn og ræktun á íslandi. Þessar aðstæður geta einnig verið vatn á myllu þeirra sem hafa hagsmuni af því að gera hrossarækt og hestamennsku á Íslandi tortryggilega.

Af þessum atburðum þurfum við að draga lærdóm og þegar rykið fer að setjast hlýtur að komast til tals að mynduð verði einhverskonar viðbragðsáætlun. Hún gæti samanstaðið af hópi sem mundi meðal annars stjórna og ráðleggja varðandi viðbrögð og fréttaflutning. Þarna er ekki eingöngu átt við um fréttaflutning erlendis heldur ekki síður fréttaflutning hér heima og stýra upplýsingaflæði til hestamanna.

Senn líður að því að hestamenn þurfi að fara að huga að haustinu og upplýsingar að fara að berast varðandi það hvers ber að vænta og hvað menn þurfi að gera til þess að undirbúa haustið með kólnandi veðurfari. -hg