laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ÍM 2010 B úrslit í Tölti -

27. ágúst 2010 kl. 17:48

ÍM 2010 B úrslit í Tölti -

Og þetta eru „bara“ B úrslitin heyrðist á áhorfendabekkjunum hér í Hafnarfirði þar sem sólin er farin að skína aftur þegar stórkostleg B úrslit í Tölti fór fram rétt áðan.

Þessi keppni var eins og úrslitakeppnir eiga að vera, enginn öruggur með neitt og keppendur skiptust á að leiða eftir hverja grein.  Eftir hæga töltið voru Hulda Gústafsdóttir og Sveigur frá Varmadal með forystu en Sara og Díva sem komu efstar inn í öðru sæti.
 
Huldu gekk ekki vel í hraðabreytingunum en þar voru Sara og Díva öruggar með sig og sjaldgæft að sjá önnur eins tilþrif eins og hjá Dívu þegar húnn settist á rassinn og keyrði sig upp á ferð. Sigurður Óli Kristinsson og Svali frá Feti sem komu „bakdyramegin“ inn í úrslitin eftir að einn keppandi dró sig úr keppni var einnig með magnaðar hraðabreytingar og var kominn fast á hæla Söru og Dívu sem leiddu eftir hraðabreytingar.
 
Það var greinileg spenna í loftinu meðan einkunnir fyrir hraðabreytingar voru lesnar upp og þurfti þulur að halda aftur af keppendum sem voru komnir í gírinn og biðu eftir merki um að fá að ríða yfirferð.  
Yfirferðin réði úrslitum, Sigurður  og Svali ætluðu sér greinilega mikið og eins og Sigurður sagði þegar hann kom út af vellinum: „Þegar þulurinn sagði eftir yfirferðina að ég kæmi fast á hæla Söru hugsaði ég bara, jæja Rauður minn nú er það allt eða ekkert“. 
Og það var allt, Svali flaug eftir vellinum á mikilli ferð, sterkur hestur og öruggur með mikla útgeislun, Sara og Díva hin unga stóðu sig með mikilli prýði og þegar Sigurður og Svali sem voru búnir að týna upp hvern keppandann af öðrum komu að lendinni á Dívu var sem hún fengi aukakraft og bætti í, Svala og Sigga tókst ekki að fara fram úr þeim þegar þulur stöðvaði keppnina.
 
En úrslit voru ráðin, tveir dómarar gáfu Sigurði og Svala 9,0 fyrir yfirferð og hann hafði sigur í B úrslitunum með 8,12 í einkunn eftir að hafa komið neðstur inn. Þetta voru úrslit sem maður hefði helst viljað sjá tvo sigurvegara því bæði Sigurður og Sara áttu sigur í raun skilinn.
 
 
 
1   Sigurður Óli Kristinsson / Svali frá Feti 8,12
2   Sara Ástþórsdóttir / Díva frá Álfhólum 7,97
3   Hulda Gústafsdóttir / Sveigur frá Varmadal 7,82
4   Sigurbjörn Viktorsson / Smyrill frá Hrísum 7,60
5   Hans Kjerúlf / Sigur frá Hólabaki 7,46
6   Birgitta Dröfn Kristinsdóttir / Vera frá Laugarbökkum 7,46