laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Illingur seldur fyrir risaupphæð

Jens Einarsson
28. ágúst 2009 kl. 09:32

Líklega á förum til Svíþjóðar

Stóðhesturinn Illingur frá Tóftum hefur verið seldur til útlanda. Verðið fæst ekki uppgefið en er talið eitt það hæsta sem greitt hefur verið fyrir íslenskan stóðhest frá upphafi. Milligöngumaður um söluna er Sigurður V. Matthíasson.

Samkvæmt upplýsingum H&H er búið að handsala kaupin og aðeins eftir að ganga frá formsatriðum. Mikil leynd hvílir yfir sölunni, en þó er talið líklegt að kaupandinn sé í Svíþjóð. Illingur er þriðji hæst dæmdi íslenski stóðhestur heims, með 8,73 í aðaleinkunn. Hann var efstur á blaði í sínum flokki inn á HM2009 í Sviss en sala á hestinum gekk ekki í gegn fyrir mótið og þess vegna fór hann hvergi.

Illingur er undan Núma frá Þóroddsstöðum og Hríslu frá Laugarvatni, Gáskadóttur frá Hofstöðum. Hann stóð efstur fjögra vetra stóðhesta á LM2002 á Vindheimamelum og var í öðru sæti í A flokki á LM2008 á Gaddstaðaflötum. Knapi á hestinum hefur jafnan verið Daníel Jónsson. Illingur er ellefu vetra. Í WorldFeng eru skráð 223 afkvæmi undan hestinum. Fimm eru með fyrstu verðlaun og fimm til viðbótar eru með 7,90 og hærra í aðaleinkunn. Seljandi hestsins er Illingur ehf.