sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Icehorse Experience býður í hestaferð-

3. mars 2011 kl. 15:29

Icehorse Experience býður í hestaferð-

Kristinn Guðnason formaður Félags Hrossabænda opnaði formlega kynningarvefinn Icehorse Experience í húsnæði Íshesta í Hafnafirði í dag.

Með vefsíðunni bjóða bændur fólki svokallaða í rafræna reiðtúra með það að leiðarljósi að kynna hestinn, hæfileika hans og órjúfanlegra tengsla hans við náttúruna. Á heimasíðunni eru tólf myndskeið úr þremur hestaferðum sem farnar voru síðasta haust. Myndskeiðin eru séð út frá sjónarhóli hestamanns sem ríður með félögum og rekstur um fallega náttúru. Þannig sveiflast faxið í vindinum, áhorfandinn getur heyrt í hófadynum og hrópum samferðamanna, fengið tilfinningu fyrir umhverfinu, veðrinu og upplifað hvernig rekstur á hrossastóði fer fram.

Nú þegar má nálgast myndskeið úr ferðum um Þingvöll, meðfram og yfir Ytri-Rangá auk þess sem kvikmyndatökumenn slóust í för með Landmönnum þegar farið var Landmannaleið. Fram kom í máli Huldu G. Geirsdóttur, sem kynnti vefinn í dag að ætlunin sé að bæta inn fleiri myndskeiðum frá ólíkum ferðum og jafnvel frá öðrum aðstæðum, t.d. úr keppnisbraut ríðandi á landsfrægum hestum. Markmiðið sé þó fyrst og fremst að gefa innsýn inn í það hvernig það er að fara í hestaferðir og kynna íslenska hestinn á þennan óvenjulega og skemmtilega hátt. Myndskeiðunum er ætlað að verða dreift manna á milli á veraldarvefnum gegnum samskiptasíður og tölvupósta.

Á síðunni má nálgast ýmsan gagnlegan fróðleik um íslenska hestinn og hvernig hann er mótaður af uppruna sínum; náttúrunni, víðáttunni, uppeldi og frelsi. Auk þess má finna tengla inn á hrossaræktarbú, söluaðila hrossa og hestaferðafyrirtæki. Hrossaræktendur, söluaðilar og aðstandendur hestaferða geta haft samband við Félag Hrossabænda til þess að fá sín fyrirtæki kynnt á Icehorse Experience.

Eiðfaxi mælir með að allir kíki í rafrænan reiðtúr!