miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Í þágu hestsins

30. október 2013 kl. 08:59

Aðsend grein frá Ingunni Reynisdóttur dýralækni.

Ég lærði allt frá blautu barnsbeini að koma fram við hesta af virðingu og sanngirni.  Tamningaraðferðir sem notaðar voru byggðust á að byggja upp trausti og samvinnu milli manns og hests.  Sumir hestar taka lengri tíma en aðrir vegna þess hve breytilegir einstaklingarnir eru.  Ef að mati föður míns, Reynis Aðalsteinssonar var farið óvægilega að hesti og honum misboðið hvort sem var í reið eða umgengni kallaði hann það að seilast inn í sálina og það bæri að forðast af öllum mætti og þetta hef ég haft að leiðarljósi í minni hestamennsku.

Í tilefni af því að sýnikennsla/námskeið í „nýstárlegum tamningaraðferðum“ hafa verið haldin víða um land, þar sem fólki er meðal annars kennt að leggja hesta með valdi og til þess notuð bönd og einnig aðferð sem kallast „flooding“ langar mig að fólk gefi sér tíma til að fræðast um hvað er að gerast hjá hesti/ ótömdu tryppi sem þetta er gert við.   Tilgangur minn er því að fræða fólk um hugsanlegar afleiðingar fyrir hestinn.

Hvernig læra hestar?

Hestar hafa ótrúlega gott minni og læra af reynslunni – með því að prófa sig áfram og eru sérfræðingar í að nema hin minnstu smáatriði.  Hestar taka eftir mun minni merkjum en maðurinn. Þeir eiga hins vegar mun erfiðara með að vega og meta þessi smáatriði saman, vægi þeirra og samhengi yfir lengri tíma.  Bara með mikilli þjálfun er hægt að kenna hestum að skilja lengra ferli atburðarrása.  Hestar hafa ekki rökhugsun og vegna þess geta þeir ekki dregið ályktanir.  Þar sem þeir læra bara af reynslunni (alhæfa), verður að æfa allt í öllu hugsanlegu samhengi.  Það sem verra er er að hesturinn man best af öllu eftir spennu og hræðslu, enda er hann flóttadýr.  Því er mikilvægt að muna að lengi býr að fyrstu gerð og vanda verður öll vinnubrögð þegar um frumtamningar eru að ræða.  Hestar í uppnámi og undir stressi eiga erfitt með að læra þar sem sá hluti taugakerfisins sem er uppnámi gerir heilanum það ekki kleift.  Til að ná sem bestum árangir við að kenna hesti verðum við að búa til umhverfi þar sem honum líður vel og er öruggur, með þeim hætti verður samferðin ánægjulegri bæði fyrir okkur og hestinn.  Vinna okkar með hestinn ætti ekki að vera barátta og við ættum aldrei að þvinga vilja okkar upp á hann.  Heldur kenna þeim að þeir geti treyst okkur sem leiðtoga þeirra.

Þótt að við þurfum að fá hestinn til að bera virðingu fyrir okkur og hlýða þurfum við ekki að drottna.  Það er  meira áríðandi að hesturinn þinn viðurkenni og velji þig sem leiðtoga sinn. Ekki misskilja mig það er hægt að kenna hesti að leggjast og byggist sú æfing á miklu trausti milli manns og hest.  Hann treystir þér fyrir því að þú munir ekki éta hann og verjir hann fyrir öðrum rándýrum.

Hafa ber í huga að hestur sem liggur er í mjög varnarlausri stöðu og vill ekki óumbeðinn setja sig í þessa stöðu nema hann treysti manneskjunni sem er að biðja hann.  Hesturinn er bráð.  Ef hann getur mun hann flýja frá vandræðum, sársauka, mögulegum hættum og dauða.  Þeir eru þannig innbyggðir frá náttúrunnar hendi að flýja eins hratt og langt og þeir geta til að vera öruggir og ótamda tryppið sér manninn sem rándýr.

Iben Andersen er trúlega fær tamningarkona og hefur ýmislegt fram að færa.  Hinsvegar er tvennt sem er mikilvægt að minnast á og fólk verður að átta sig á hvernig virkar, það er „flooding“ og að leggja ótamið tryppi nauðugt.  

Hún sýndi meðal annars aðferð („flooding“)  þar sem byrjað er á því að æra hestinn með písk með poka og öðrum áhöldum þar til hann stóð kyrr.  Í fyrstu tryllist hesturinn af hræðslu og reyndi að flýja gerandann en gefst svo upp og stöðvar.  Aðferðin („flooding“) felst í því að leyfa hestinum ekki að flýja áreitið og ekki hætt fyrr en hann sér enga aðra lausn en að gefast upp og stöðva.  Þá er barningnum hætt og hann losnar undan áreitinu.  Þessi aðferð á að virka þannig að hesturinn er vaninn við áreitið þannig að hann bregðist ekki við með flóttaeðli sínu.  Það er mikilvægt að ná stjórn á fótum hestsins og leyfa honum ekki að forðast áreitið sem við ætlumst til að hann venjist.

Það eru til margar aðferðir við að venja hest við áreiti.  Sú sem oftast er notuð kallast „systematic desensitation“ má þýða sem kerfisbundin afnæmun þar sem hestinum er ítrekað sýnt það sem hann er hræddur við og án þessa byggja upp ofsahræðslu og án þess að nokkuð slæmt gerist og helst eigi sér stað jákvæð umbun, með þessu móti venst hesturinn því sem hann er hræddur við. 

Aðferðin „flooding“ sem sýnd var má þýða sem yfirflæði áreitis.  Hesturinn er þvingaður til að takast á við það sem hann óttast þangað til að hann virðist ekki lengur hræddur.  Flooding kennir mörgum hræddum hestum að eina leið þeirra út úr slæmum aðstæðum er að gefast upp andlega og líkamlega, hætta að sýna viðbrögð. Það er ekki talið að hesturinn hætti að hræðast hlutinn heldur hefur hann lært að sýna ekki viðbrögð, en það er ekki útilokað að einhverjir  hestar geti komist yfir hræðslu sína með þessari aðferð en oftast tapa þeir trausti sínu til tamningamannsins í leiðinni.  Ef ég set þetta á mannamál er þetta svipað og ef þú værir lofthræddur og værir gefinn sá úrslitakostur að vera á jörðinni með mannætukrókódíl eða klifra upp í tré.  Flestir myndu klifra upp í tréið en það þýðir ekki að þú sért ekki lofthræddur lengur. Þú ert bara upp í tréinu, hræddur.  Þessi aðferð getur virkað hratt en er mjög vafasöm og getur valdið hættulegum aðstæðum. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ef aðferðin mistekst og hestinum tekst að forðast áreitið eykur það hræðslu hans til muna og getur valdið ofsahræðslu til frambúðar.

Í öðru lagi var sýnd aðferð sem fólst í því að leggja hest. Við það var notaður kaðall og önnur framlöpp bundin upp og hann þvingaður til að leggjast.  Hugmyndafræðin bak þessari aðferð er að ná yfirráðum og brjóta niður vilja hesta sem eru erfiðir.

Hvað gerist hjá hesti sem er þvingaður/neyddur til að leggjast?

Oftast mun hann berjast gegn því að leggjast, það er mjög einstaklingsbundið hve langan tíma það tekur og oft tekur það mikið á og  hann svitnar mikið.  Á endanum gefst hann upp og leggst, og liggur hann þá oftast alveg kyrr.  Það er hægt að klappa og strjúka honum allstaðar  og hann bregst ekki við.  Augun opin og blikka en ekki fókuseruð á utanaðkomandi hluti.  Hann er ekki heima eins og það er kallað.  Hvað er að gerast, líklega hefur þú séð þetta í sjónvarpinu þegar rándýr ræðst á bráð, hún hreyfist ekki, hættir að berjast þótt að hún sé lifandi.  Þessi hegðun er þekkt í dýraríkinu og kallast Tonic Immobility (TI). 

Tonic Immobility eða tímabundin lömun er innbyggt varnarkerfi sem stjórnar atferli dýrsins við aðstæður þar sem dýrinu finnst það vera í óumflýjanlegum lífsháska eða verður fyrir mikilli hræðslu eða ógnun.  Dýr sem upplifir TI sýnir algjöra bælingu á vöðvastarfsemi.   Það verður hreyfingarlaust og ónæmt fyrir líkamlegum sársauka, og það hvorki berst á móti né gefur frá sér hljóð því það gæti orðið til þess að rándýrið héldi áfram árásinni.  Rannsóknir sýna að svipað geti gerst hjá fólki sem upplifir andlegt eða líkamlegt áfall, eins og t.d. konur sem lenda í kynferðisofbeldi, fólk sem lendir í slysi eða miklum lífsháska.  Hesturinn hefur gefist upp fyrir rándýrinu (tamningamanninum) og er tilbúinn að deyja og er að undirbúa sig undir að vera étinn.

Hvað gerist þegar hesturinn fær að fara á fætur?

Oft virðist hesturinn vera í trans og því þarf að ýta við honum, vekja hann til að fá hann til að standa upp, sumir hestar standa strax upp.  Það sem fær fólk til að halda að þetta sé í lagi (réttlætanlegt), er að hesturinn virðist rólegur, yfirvegaður, og þess vegna trúir  fólk því að ekkert slæmt hafi komið fyrir hestinn.  Það er alls ekki raunin ef TI er að verki.  Afleiðingarnar, hjá skepnu sem upplifir þetta mikið andlegt og líkamlegt stress (álag) eru margar. 

Þær geta t.d verið vöðvaskemmdir (tying up) ef hesturinn berst of lengi og í verstu tilfellum getur það leitt til dauða.  Andlegi þátturinn af TI er alvarlegri.  Þessi aðferð gerir dýrinu ekki kleift að “ finna svarið” til að komast undan líkamlegri og andlegri pressu sem á það er lagt  og getur valdið ástandi sem kallast learned helplessness (lært hjálparleysi). 

Learned helplessness er skilgreint sem andlegt ástand þar sem dýrið/einstaklingurinn lærir að það hefur enga stjórn á óþægilegum eða skaðlegum aðstæðum.  Öll þeirra viðbrögð eru tilgangslaus  og þau eru hjálparlaus.  Þegar hestar finna það að sama hvað þeir gera geta þeir ekki komist undan sársaukanum eða áreitinu, bregðast þeir fyrst við með því að berjast en þegar það virkar ekki og þeir fá enga lausn gefast þeir upp og eru því í áhættu með að þróa með sér lært hjálparleysi.  Það eru varanlegar líffræðilegar afleiðingar sem ná mun lengra og dýpra en að geta ekki forðast áreitið eða sársaukann.  Þegar hestar geta ekki komist undan sársaukanum eða áreitinu er það þeirra lausn að virðast rólegir og aðgerðarlausir til að draga ekki athygli rándýrsins að sér.

Hjá þessum hestum mælist hærra magn cortisol sem er stresshormón, einnig sjást oft magasár hjá þessum hestum og eru oft með skert ónæmiskerfi.  Hestum sem upplifa TI og lært hjálparleysi er oft  lýst sem  óvirkum, daufum, þunglyndum, en gera allt sem er beðið um án þess að mögla eða sýna hræðslu en vantar neistann, framtakið og gleðina.

Lært hjálparleysi getur einnig þróast hjá hestum við þær aðstæður þar sem hann upplifir að hafa enga stjórn á slæmum, sársaukafullum aðstæðum til að mynda við innbindingar/niðurbindingar, flooding, stöðugu taumátaki sem ekki er hægt að komast undan, mikilli og stöðugri hvatningu fram að taum og ekki gefið eftir.

Það að leggja hest niður á þennan hátt er ein elsta tamningaraðferð í heimi og telst því ekki nýstárleg heldur er þetta aðferð sem hefur verið stunduð í hundruði ára og er vægast sagt mjög umdeild um allan heim og samrýmist ekki þeim hugmyndum sem við höfum um dýravelferð í dag.  Í dag þekkjum við mun betri og hestvænni aðferðir og margar rannsóknir hafa verið gerðar á atferli hesta og hvernig þeir læra, þær sýna að umræddar aðferðir eru úreltar og skaðlegar og eiga engan veginn rétt á sér. 

Með þessum aðferðum erum við búin að eyðileggja það frjálsræði sem heillar okkur mest við hesta, við höfum tekið eldinn sem knýr vélina.  Spillum ekki þeim einstaka persónuleika sem hesturinn okkar hefur,  hans góða geðslagi, yfirvegun og þolgæði.  Þarna er enginn vafi á því að við seilumst inn í sálina og það er ekki ásættanlegt. 

Höfundur: Ingunn Reynisdóttir dýralæknir og hestamaður

 

Heimildir:

Clerici,C.A., Veneroni,L., The immpossible escape: Studies on the tonic immobility in animals from comparative psycology perspective. New York: Nova Science Publisher (2012)  

Hall, C., Goodwin, D., Heleski, C.,  Randle, H., Waran, N. (2008): Is There Evidence of Learned Helplessness in Horses?, Journal of Applied Animal Welfare Science, 11:3, 249-266.

McLean, AN., 2003 The truth about horses. Penguin books, Australia.

 

McLean, A., McLean, M.(2008):  Academic horse training, Equitation Science in Practice.,Australia., Australian Equine Behaviour Centre.

Peters, S., Black, M., (2012): Evidence- based horsemanship., Shelbyville, KY USA.,

 

Volchan, E et al. (2011).: Is there tonic immobility in humans? Biological evidence froim victims of traumatic stress.  Biological Psychology 88 (2011) 13-19.

Waran, N., McGreevy,P., & Casey, R. A. (2002).  Training methods and horse welfare. In N. Waran (Ed), The welfare of horses (pp 151-180). Dordrecht, The Netherlands: Kluwer Academic.

 

Wayne McIlwraith, C., Rollin, B.E., Equine Welfare ., Wiley-Blackwell.