mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Í þágu hestsins

13. september 2013 kl. 15:08

Dr. Gerd Heuschmann, hestafræðingur, hestamaður og dýralæknir hefur sérhæft sig í hreyfifræði hesta og á afleiðingu rangrar þjálfunar á heilbrigði og velferð.

Dr. Gerd er er ötull talsmaður þess að þjálfun sé í fullri samvinnu við hestinn og hefur talað gegn hverskonar þvingunum við þjálfun. Heuschmann hefur haldið námskeið og fyrirlestra víða um heim en hann hélt eitt hér á Íslandi í júlí sem skipulagt var af Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

 Um fimmtíu þátttakendur voru á námskeiðinu „Í þágu hestsins“. Námskeiðið var haldið í minningu Reynis heitins Aðalsteinssonar, tamningamanns og reiðkennara, sem var mjög umhugað um velferð hestsins í leik og keppni.

Í fróðlegu viðtali sem kemur í næsta tölublaði Eiðfaxa mun Dr. Gerd Heuschmann varpa skýrara ljósi á hvað gerist í líkama hestsins við ranga þjálfun og síðan við rétta þjálfun út frá líkamsbyggingu og þjálfunarfræðilegu sjónarmiði. 

 Hann segir meðal annars að gildi gömlu klassísku meistaranna séu að engu höfð í dag. Markmið þeirra hafi verið að byggja upp „heilbrigða sál í hraustum líkama“. Fyrir hundrað árum og þar áður hafi hermaðurinn átt líf sitt undir vel tömdum og vel þjálfuðum hesti. Ekki hafi þýtt að hlaupa yfir kafla í þjálfuninni. Í dag ráði peningar ferðinni. Hestar séu drifnir í keppni löngu áður en þeir hafi aldur, þroska og þjálfun til. Þjálfarar og knapar, oftar en ekki að áeggjan gráðugra eigenda, þvingi hesta í falskan höfuðburð, sem hafi hættulegar afleiðingar fyrir hestana. Vegna þess að þá geti hesturinn ekki notað hálsinn sem þá jafnvægistöng sem náttúran ætlaði honum. Hann verði því að spenna og stífa löngu bakvöðvana til að halda á byrðinni og þar með sé öll hreyfing og fjaðurmagn farið úr bakinu.

 

Lesa  má viðtalið í heild sinni í næsta tölublaði Eiðfaxa