mánudagur, 26. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hyllir undir lækningu

17. desember 2013 kl. 14:03

Hestar bólusettir gegn sumarexemi með erfðabreyttu byggi

Tilraunir með bólusetningar gegn sumarexemi sýna árangur.

„Eftir þrettán ára þrotlausar rannsóknir hyllir undir að lækning finnist við hinu alræmda sumarexemi í hestum. Sumarexem er sjúkdómur sem er óþekktur í hrossum hér á landi en leggst á íslenska hesta sem fluttir eru til útlanda.

Á Keldum hafa undanfarið staðið yfir tilraunir með að bólusetja hesta með því að gefa þeim erfðabreytt bygg. Sjónvarpsþátturinn Landinn á RÚV fjallaði um tilraunirnar á dögunum og má sjá þá umfjöllun hér.

 Félag hrossabænda hefur frá upphafi staðið við bak rannsókna á sumarexemi og átt mann í stjórn sumarexemsverkefnisins, enda um gríðarlega mikið hagsmunamál að ræða fyrir ræktendur og seljendur íslenskra hrossa og ekki síður mikilvægt mál er varðar dýravelferð,“ segir í tilkynningu frá Félagi Hrossabænda.

 

Í Jólablaði Eiðfaxa sem fór í dreifingu í dag má einnig sjá fróðlega grein af sama meiði sem starfsfólkið í meinarfæði á Keldum ritaði.

„Á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum er unnið að þróun ónæmismeðferðar gegn sumarexemi í hestum. Sumarexem er ofnæmi gegn próteinum (ofnæmisvökum) úr bitkirtlum smámýs (Culicoides spp.). Ofnæmi myndast þegar ónæmiskerfi hestsins svarar með yfirdrifnum hætti á prótein sem kvenflugurnar seyta er þær sjúga blóð.

Með bólusetningu gegn ofnæmi er verið að tryggja að ónæmissvarið gegn viðkomandi próteinum sé ekki á braut ofnæmis. Með afnæmingu er á hinn bóginn verið að beina svarinu gegn ofnæmispróteinunum af braut ofnæmis og einnig bæla það. Bólusetning og afnæming gegn ofnæmi eru því tvær hliðar á sama peningi.

Ein af nokkrum nálgunum okkar til að þróa ónæmismeðferð gegn sumarexemi er að reyna að bólusetja eða afnæma um slímhúð munns með byggi sem tjáir ofnæmisvaka.“

Meira um þetta í Jólablaði Eiðfaxa sem er stútfullt af áhugaverðu efni fyrir hestamanninn. Blaðið er á leið til áskrifenda en hægt er að panta áskrift í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is.