fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hyllir í fokheldi á Iðavöllum

16. nóvember 2009 kl. 09:15

Hyllir í fokheldi á Iðavöllum

Eins og félagar í Freyfaxa jafnt og íbúar á Fljótsdalshéraði sem leið hafa haft um Velli hafa tekið eftir hefur mikilvægur áfangi við byggingu Reiðhallarinnar á Iðavöllum náðst.

Límtrés- og burðarvirki mannvirkisins er nú fullklárað og unnið er við klæðningu hússins með yleiningum. Ljóst er að á næstu vikum hyllir í fokheldi. Um er að ræða kærkomin og langþráðan áfanga í huga okkar hestaáhugamanna. Reiðhöll á Austurlandi er að verða staðreynd, sem fyrir svo stuttum tíma var aðeins hugsjónir og draumar.

Verk hafið á vormánuðum
Í vor og sumar var unnið við undirstöður og lóð byggingarinnar. Hafist var handa í byrjun sumars eftir langan undirbúningsferil sem fólst í könnun á hagkvæmni, notkunarmöguleikum, byggingarkostnaði og fleiru sem unnið var af stjórn Reiðhallar á Iðavöllum ehf. Síðan tók við hönnunarvinna sem var unnin af Verkís og Arkís í nánu samstarfi við stjórnina. Til að gera langa sögu stutta voru nánast allar hugsanlegar gerðir af reiðhöllum skoðaðar og ígrundaðar af stjórn og ráðgjöfum. Að lokum varð niðurstaðan sú að byggð skyldi límtrésskemma klædd yleiningum. Gengið var til samninga við BM-Vallá sem bauð hagkvæmt verð á efnispakka hússins, þ.e. límtrésvirki, yleiningar og gluggar/hurðir.

Þriggja manna starfstjórn var mynduð þegar verkið komst úr hlaði í vor. Í henni sitja fulltrúar Freyfaxa, þeir Bergur Már Hallgrímsson, formaður, Sigurbjörn Marinósson, gjaldkeri og Jónas Hallgrímsson, ritari. Í stjórn hlutafélagsins hafa jafnframt setið tveir fulltrúar sveitarfélagsins.
Jarðvinnuþáttur var boðinn út sérstaklega meðal verktaka á Héraði þegar hönnun og gerð kostnaðaráætlunar var lokið. Lægsta tilboð átti Myllan á Egilsstöðum, og var það vel undir kostnaðaráætlun. Snjöll verkáætlun Myllumanna um að stytta aksturleiðir gerði þetta meðal annars kleift, svo ekki sé rætt um slæga verkefnastöðu verktaka í þjóðfélaginu almennt.

Fjármögnun verksins
Fjármögnun byggingar af þessari stærðargráðu er klárlega ekkert annnarar handar verk nú árið 2009. Ljóst hefur verið frá byrjun að styrkur að upphæð 20 milljónir króna kæmi frá Reiðhallasjóði Landbúnaðarráðuneytisins til Freyfaxa við fokheldi, aðrar 20 milljónir koma frá sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði í formi hlutafjár. Sveitarfélagið Fljótsdalshreppur lagði Freyfaxa til 5 milljón króna styrk í verkefnið. Styrkina frá Reiðhallarsjóði og Fljótsdalshreppi leggur Freyfaxi fram sem hlutafé í Reiðhöllina á Iðavöllum ehf. Heildarhlutafé félagsins verður því 45 milljónir króna eftir fokheldi. Nú á síðari stigum er einnig ljóst að virðisaukaskattur fæst innskattaður af framkvæmdakostnaði, sem er lykilatriði við fjármögnun framkvæmda. Hlutafélagið hefur verið í viðskiptum við Nýja Kaupþing sem hefur veitt nauðsynlega þjónustu, þ.á.m. brúarlán að hluta til fokheldis. Ekki verður því þó leynt að streymi fjármuna til verkefnisins hikstaði um nokkurra vikna skeið þegar unnið var að uppsteypu burðarvirkis.

Tengibygging við félagsheimilið
Hluti af framkvæmdum við Reiðhöllina er einnig hesthúsálma, dýralæknisaðstaða og tengibygging við Félagsheimilið Iðavelli. Stóran hluta framkvæmda við tengibygginguna fjármagnar Fljótsdalshérað, sem ljóst er að er afar mikilvæg byggingunni og verður þar salernisaðstaða. fordyri og fleira sem nýtist Reiðhöllinni og félagsheimilinu Iðavöllum mjög vel. Deiliskipulag fyrir Iðavelli og Stekkhólma hefur einnig verið samþykkt. Þar má finna framtíðarskipulag að svæði hestaannafélagsins, þar sem meðal annars eru á kortunum þrjár hesthúsgötur, sem fengið hafa nöfnin Gustsvellir, Ófeigsvellir og Hrafnsvellir.

Hesthúsálma og dýralæknisaðstaða
Nú í sumar var gengið frá tveimur mikilvægum samningum fyrir verkefnið. Hr.Aust, Hrossarætarsamtök Austurlands, lýsti yfir áhuga á kaupum á hesthúsálmu Reiðhallarinnar á haustmánuðum. Þar er teiknað glæsilegt hesthús sem Hrossaræktarsamtök Austurlands mun eiga og reka. Skuldbindandi samningur um þetta var undirritaður á sumarmánuðum. Söluverð á fokheldri hesthúsálmunni er einhversstaðar nálægt kostnaðarverði. Stjórnin tók kaupum þessum fagnandi enda munu Hrossaræktarsamtökin þannig fjármagna hesthúsálmuna og eigið fé verður meira í sjálfri Reiðhöllinni.

Á sama tíma var ákveðið að ganga til samninga við Freydísi Dönu Sigurðardóttir, dýralækni. Hún lýsti fljótlega yfir áhuga á kaupum á húsnæði undir dýralæknaþjónustu í húsakynnunum. Skuldbindandi samningur við Freydísi var undirritaður á sama tíma og við Hrossaræktarsamtökin. Afhendingarstig dýralæknishúsnæðisins er miðað við fokheldi. Þar er einnig um að ræða söluverð nálægt kostnaðarverði.

Framhaldið
Eins og áður sagði er stefnt á að ljúka við fokheldi byggingarinnar á næstu vikum. Það verður að sjálfsögðu mikilvægur áfangi sem næst með afar verðmætum stuðningi Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps, Reiðhallarsjóði og Freyfaxafélaga almennt. Mikið verk hefur verið unnið á ýmsum sviðum, sem ekki eru ávalt sýnilegt – sem auðvitað er aukaatriði. Markmiðið er að Reiðhöllin á Iðvöllum sjáist.

Á næstunni er framundan skipulagsvinna og ákvarðanataka um hvernig staðið skuli að því að ganga frá byggingunni til notkunar, og þá hversu mikið verður í lagt til að byrja með. Eins verður ákveðið á næstu mánuðum nánar hvernig rekstur Reiðhallarinnar kemur til með að verða útfærður. Vonast er til þess að hægt verða að efna til einhvers konar “reisugills” eða fagnaðar nú í byrjun vetrarins.

Kveðja frá starfsstjórn Reiðhallar á Iðvöllum.