þriðjudagur, 19. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvinur frá Holtsmúla seldur

10. febrúar 2010 kl. 08:39

Kaupendur þeir sömu og eiga Tind frá Varmalæk

Hinn tvöfaldi heimsmeistari í tölti, Hvinur frá Holtsmúla, hefur skipt um eigendur. Kaupendur eru Lasse og Gunn Lundhaug í Noregi, sem eiga hina glæsilegu hestamiðstöð Stall Myra. Þau eiga einnig stóðhestinn Tind frá Varmalæk. Seljandi er Hvinsfélagið, sem að hluta er í eigu Sigurðar Sæmundssonar og fjölskyldu í Holtsmúla.

Hvinur er fæddur 1997, undan Kjarki frá Egilsstöðum og Hnyðju frá Strönd, Kjarvalsdóttur frá Sauðárkróki. Hvinur tók lítillega þátt í keppni hér heima, en fór utan til Jóhanns Skúlasonar 2004. Jóhann og Hvinur unnu heimsmeistaratitilinn í tölti á HM2005 í Svíþjóð, og aftur á á HM2009 í Sviss. Þeir hafa einnig unnið til fjölda annarra verðlauna í keppni á meginlandi.

Hvinur er stóðhestur og var sýndur í kynbótadómi í Danmörku. Hann er með 8,25 í aðaleinkunn, 8,47 fyrir kosti, þar af 9,5 fyrir tölt og fegurð í reið, og 9,0 fyrir vilja og hægt tölt. Hvinur hefur ekki verið mikið notaður sem stóðhestur samkvæmt WorldFeng (48 skráð afkvæmi). Aðallega í Þýskalandi og Svíþjóð eftir að hann fór utan. Hann á aðeins tvö skráð afkvæmi á Íslandi. Hann var notaður á Wiesenhof síðastliðið sumar og verður væntanlega í sæðingum næsta vor og sumar.

Nákvæmt söluverð á Hvin fékkst ekki uppgefið, en þær upplýsingar fengust þó að hann hefði kostað „glás“ af seðlum.