föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvert verður ræktunarbú ársins ?

17. október 2013 kl. 10:00

Hersir frá Lambanesi. Knapi Agnar Þór

Nánari úttekt á tilnefningum

Búið er að gefa út hvaða ræktunarbú eru tilnefnd til ræktunarbú ársins. En hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir árangri einstakara búa. 

Til að hljóta tilnefningu þurfa að lágmarki 4 hross að vera sýnd og 2 þeirra með 1.verðlaun.

Auðsholtshjáleiga, Gunnar Arnarson, Kristbjörg Eyvindsdóttir og börn.

Tíu hross voru sýnd frá Auðsholtshjáleigu í ár en eitt var sýnt í Þýskalandi. Hrossin sem voru sýnd eru Hrafnar, Toppur, Eldey, Vá, Ríma, Hervar, Terna, Teista, Vals og Prýði. Meðalaldur er 5,3 ár. Toppur var þriðji í flokki sex vetra stóðhesta með 8,49 í aðaleinkunn og Hrafnar var þriðji með 8,46 í aðaleinkunn. Ríma var þriðja í flokki 6 vetra hryssa með 8,49 í aðaleinkunn. Terna var níunda í flokki fimm vetra hryssa með 8,30 í einkunn. Meðaltal aðaleinkunna hrossanna er 8,21.

Árbæjarhjáleiga/Skarð, Kristinn Guðnason, Marjolin Tiepen og dætur.

Fjögur hross voru sýnd frá Árbæjarhjáleigu/Skarði í ár en það eru þau Jarl, Lukka, Vænting og Krás. Jarl var hæst dæmdi sex vetra hesturinn í ár sem og hæst dæmdi stóðhesturinn í ár með 8,71 í aðaleinkunn en hann hlaut 8,92 fyrir hæfileika. Meðaltal aðaleinkunna hrossanna er 8,19

Einhamar, Hjörleifur Jónsson og Sif Ólafsdóttir.

Fimm hross voru sýnd frá Einhamri 2 í ár en það eru þau Bylgja, Bára, Darri, Daggar og Dósent. Meðalaldur er 4,4 ár. Darri, Daggar og Dósent eru allir fjögurra vetra en Daggar var þriðji hæsti fjögra vetra hesturinn í ár með 8,19 í aðaleinkunn og Dósent fjórði með 8,17 í aðaleinkunn. Meðaltal aðaleinkunna hrossanna er 8,11.

Hlemmiskeið 3, Árni Svavarsson og Inga Birna Ingólfsdóttir.

Níu hross voru sýnd frá Hlemmskeiði, sjö hér heima og tvö út í Þýskalandi.Mjölnir og Sólmundur voru sýndir í Þýskalandi en Sýn, Sólrún, Skriða, Sonja, Gerpla, Jóra og Hátíð hér heima. Meðalaldur hrossana var 5,44. Hátíð, Jóra, Gerpla og Sonja eru allar fjögurra vetra en Hátíð er tíunda hæst dæmda fjögra vetra merin í ár. Skriða er fimm vetra, Sólrún sex vetra, Sýn og Sólmundur sjö vetra og Mjölnir átta vetra. Meðaltal aðaleinkunna hrossanna er 8,00

Hrísdalur, Gunnar Sturluson og Guðrún Margrét Baldursdóttir.

Fjögur hross voru sýnd í fullnaðardóm í ár frá Hrísdal en það voru þau Hrynur, Steggur, Nökkvi og Harpa. Öll hrossin eru fjögurra vetra nema Hrynur sem er sex vetra. Meðalaldur þeirra er 4,5 ár. Steggur frá Hrísdal er sjötti hæst dæmdi fjögurra vetra hesturinn í ár en hann hlaut 8,14 í aðaleinkunn og Hrynur er fimmti hæst dæmdi sex vetra stóðhesturinn í ár með 8,45 í aðaleinkunn. Meðaltal aðaleinkunna hrossanna er 8,11. 

Jaðar, Agnar Róbertsson og Kristbjörg Kristinsdóttir.

Það voru fimm hross sem fóru í fullnaðardóm frá hrossaræktarbúinu Jaðri en það voru þau Nótt, Dáð, Sól, Jarl og Rjóð. Meðalaldur hrossana er 5,4 ár en Rjóð er fjagra vetra, Jarl fimm vetra og Sól, Dáð og Nótt eru sex vetra. Meðaltal aðaleinkunna hrossanna er 8,15.

Lambanes, Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir Thorlacius.

Frá Lambanesi komu fjögur hross til dóms, Djásn, Hersir, Laxnes og Höll. Meðalaldur þessara hrossa er 4,25 ár en öll eru þau fjagra vetra nema Djásn sem er fimm vetra. Hersir frá Lambanesi er hæst dæmdi fjögurra vetra stóðhesturinn í ár með 8,38 í aðaleinkunn og Laxnes er fimmti hæst dæmdi fjögra vetra stóðhesturinn í ár með 8,16 í aðaleinkunn. Meðaltal aðaleinkunna hrossanna er 8,04.

Miðás, Gísli Sveinsson og Ásta Berghildur Ólafsdóttir.

Sex hross voru sýnd frá Miðási en það voru þau Tvenna, Óskahringur, Kjarnorka, Orusta, Kveikja og Platína. Meðalaldur þeirra er 5,33 en öll eru þau fimm vetra nema Tvenna sem er sjö vetra. Meðaltal aðaleinkunna hrossanna er 8,01.

Syðri-Gegnishólar, Olil Amble og Bergur Jónsson.

Sautján hross voru sýnd frá þeim Bergi og Olil. Meðalaldur hrossana er 5,3 ár. Álfarinn frá Syðri-Gegnishólum er níundi hæsti fjögra vetra stóðhesturinn í ár með 8,06 í einkunn og Bóla frá Syðri-Gegnishólum er sjötta hæsta fjögra vetra hryssan í ár með 8,06. Meðaltal aðaleinkunna hrossanna sem sýnd voru er 8,02.

Torfunes, Baldvin Kristinn Baldvinsson.

Níu hross voru sýnd frá Torfunesi í ár og er meðalaldur þeirra 5,4 ár. Ljúfur frá Torfunesi er tíundi hæst dæmdi fimm vetra stóðhesturinn í ár en hann er með 8,32 í aðaleinkunn. Meðaltal aðaleinkunna hrossanna er 8,09