mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvert er markmið keppandans?

19. maí 2015 kl. 10:23

Aðsend grein frá formanni Félags tamningamanna.

Súsanna Sand Ólafsdóttir, formaður Félags Tamningamanna sendi fjölmiðlum eftirfarandi pistil:

Hugleiðing mín um flokkaskiptingu, tilgangi keppninnar o.f.l.

Hvert er markmið keppandans? Það er hollt og gott að skora á sjálfan sig, sjá hvar maður stendur og setja sér markmið.

En við hvað á að miða? Skiptir máli í hvaða sæti ég lendi eða hvort ég vinn bikar?

Í raun ætti það ekki að skipta máli, aðalmálið er að keppa við sjálfan sig og sinn hest, reyna að þróast, fara yfir síðustu einkunnir, fá álit dómara, reiðkennara eða félaga sem maður treystir og stefna að því að gera betur. Það er raunverulegur sigur ef ég get þjálfað mig og hestinn minn betur, hækkað mínar tölur og hestsins míns frá síðasta móti.

Ég hef verið að hugleiða flokkaskiptinguna, t.d. fyrir fólk sem langar að byrja að keppa. Það guggnar þegar það sér keppinautana í 2. flokki. Horfir á hörkuúrslit hjá keppnisreyndu áhugafólki. Aftur á móti þorir reynda áhugafólkið ekki í 1. flokk af því að þar eru keppnisreyndir atvinnuknapar. Af hverju fara þeir atvinnuknapar ekki í meistaraflokk?

Er ástæða þessara stíflu að knapar eru hræddir við að eiga minni séns á úrslitasæti og fá bikar? Þetta eru keðjuverkandi áhrif sem valda stöðnun í flokkunum.

Ég hvet fólk sem er í vafa hvar það á að staðsetja sig að hugsa þetta uppá nýtt. Að setja sér markmið og keppa einungis við sínar eigin tölur og fyrri árangur. 

Vera jákvæð, óska þess að öllum keppendum gangi sem allra best því það er raunverulegur mælihvarði á hvar maður stendur sjálfur.

Einnig ef maður sjálfur er jákvæður og óskar öðrum velfarnaðar, gengur manni betur sjálfum, hesturinn skynjar jákvæðu orkuna, samband og útgeislun verður meiri. 

Pössum okkur að falla ekki í þá grifju að hneykslast á þeim sem endalaust eru með sama hestinn, eða þeim sem geta keypt dýra tilbúna hesta. 

Hver hefur sýna leið, fjölbreytileikin í hestamennskunni er frábær, samgleðjumst og stundum fordómalausa keppnishestamennsku.

Færum okkur upp um flokk, gerum keppnina aðgengilegri fyrir þá sem langar að byrja að keppa.

Gangi ykkur vel í keppnum sumarsins.