þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvert er gildi kynbótadóma á Landsmóti?

7. nóvember 2014 kl. 18:56

Rætt var um að sleppa sýningum 1. verðlauna stóðhesta fyrir afkvæmi á Landsmóti og færa slíkar verðlaunaveitingar á ráðstefnuna Hrossarækt.

Ýmsar hugmyndir um betrumbætur á kynbótahluta Landsmóts ræddar á aðalfundi Félags hrossabænda.

Góðar umræður um Landsmót sköpuðust á aðalfundur Félags hrossabænda sem fór fram í dag. Fundurinn sameinaðist í hringborðsumræðu um aðkomu kynbótahrossa og ræktenda að landsmótum og gafst þingfulltrúum þar færi á að viðra skoðanir sínar og tillögur til betrumbóta. Sitt sýndist hverjum en á umræðum að dæma virtust fundarmenn sammála um að fjöldi kynbótahrossa væri of mikill.

Pétur Halldórsson sýningarstjóri á Landsmóti sagði að taka þyrfti ákvörðun um hvort ræktendur vildu halda áfram að dæma hross á sama hátt á áður, eða breyta formi sýninga á Landsmótum.

Alls náðu 282 hross lágmörkum fyrir síðasta Landsmót en 231 mættu. Samkvæmt lauslegum útreikningum þyrfti að minnka kynbótahross niður í 150 talsins ef rúma á fordóma inn í þriggja daga dagskrá.

Í máli Heimis Gunnarssonar fyrr um daginn kom fram að innan við 2% kynbótahrossa hljóta hæsta dóm sinn á stórmóti, á borð við Landsmót. Því var gildi þess að dæma hross á mótinu dregin í efa.

Allflestum fundargestum þótti þó nauðsynlegt að sýna og dæma 4 og 5 vetra hross á mótinu en virtust margir vera sammála því að sleppa eða fækka allverulega hrossum í eldri flokkum. Aðrir lögðu til verulega fækkun á kynbótadómum en að taka þess í stað upp einskonar sölusýningar kynbótahrossa. Öðrum þótti kostur að stytta dagskrá kynbótahluta Landsmóts með því að sleppa verðlaunaveitingu afkvæmastóðhesta sem hljóta 1. verðlaun.

Ljóst er að stjórn Félags hrossabænda hefur úr mörgum umræðupunktum að vinna eftir fundinn. Í máli Sveins Steinarssonar, formanns, kom fram að stefnt sé á að fram verði komin tillaga um hvernig félagið vill nálgast Landsmót að ári liðnu.