laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvers vegna/hvers vegna ekki landsmót í Reykjavík?

14. febrúar 2010 kl. 22:52

Hvers vegna/hvers vegna ekki landsmót í Reykjavík?

Sú ákvörðun stjórnar LH að ganga til viðræðna við hestamannafélagið Fák í Reykjavík um að halda landsmót 2012 á svæði félagsins, veldur miklum titringi meðal hestamanna.
Á Facebook hafa verið stofnaðir hópar sem eru ýmist með eða á móti því að halda LM í Reykjavík. Fáir hestamenn eru hlutlausir í svo stóru máli og allir hafa skoðun á því. Ekki fer sú skoðun endilega eftir búsetu manna og þá hlýtur maður að spyrja sig: Hefur þetta fólk kynnt sér málið til hlítar? Af hverju eru hestamenn svona sterkt á móti staðarvalinu? Er óeðlilegt að halda landsmót á einu best búna og fjölmennasta svæði hestamanna? Eða er algjör vitleysa að halda landsmót í borginni? Af hverju?

Í viðtali við Bændablaðið 11.febrúar, útskýrir Haraldur Þórarinsson formaður LH þau sjónarmið og rök sem höfð voru til hliðsjónar við þá ákvörðun stjórnar LH að ganga til viðræðna við Fák um Landsmót 2012. Haraldur segir m.a.:

„Í Víðidalnum er athafnasvæði stærsta hestamannafélags landsins og mikil mannvirki til staðar sem eru í stöðugri notkun allt árið um kring og því góð nýting á þeim. Hestamannafélagið Fákur er elsta hestamannafélag landsins og  lagði mikið af mörkum þegar íslenski hesturinn var hafinn til vegs og virðingar á ný, með því að hafa forustu um stofnun og rekstur LH fyrir sextíu árum.
Vellir í Víðidal eru jafngóðir og annarsstaðar á landinu og því ætti að staða til sýningar á okkar bestu hross um að vera mjög góð. Aðstaða til að hýsa hross er hvergi eins góð, mikið er af góðum húsum til staðar á öllu stór-Reykjavíkursvæðinu og reynt verður að sjá þeim fyrir beitarhólfum sem þess óska.
Aðstaða fyrir eigendur og knapa á að vera jafngóð eða betri en á öðrum stöðum. Þjónusta við hestaeigendur sem mótsgesti ætti að geta verið jafngóð á þessu svæði og öðrum eða betri. Mörg stór félög eru á stór Reykja víkursvæðinu. Næg bílastæði eru fyrir keppendur og áhorfendur.
Þegar við höfum notið þess sem íslenski hesturinn hefur upp á að bjóða með tilheyrandi dagskrá fram á kvöld þá eru miklir möguleikar á fjölbreyttri gistingu þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og mætt úthvíldir að morgni. Skipulagt hefur verið svæði í Víðidalnum ekki langt frá Elliðaánum fyrir um 500 hjól- og tjaldhýsi ásamt venjulegum tjöldum. Allir sem til þekkja vita að Elliðaárnar og Víðidalurinn eru friðsælt og fallegt útivistarsvæði. Þannig að þar ætti að vera auðvelt að láta sér líða vel. Aðstaða fyrir hestamannafélögin verður tryggð hvort sem þau kjósa að vera í tjaldbúðum eða húsnæði. Vilji er til að bjóða fólki upp á reiðtúra á milli félaganna á þessu svæði til að kynnast útivistarsvæðum þeirra sem sum hver eru mjög falleg og gefandi.“

Einhverjir minnast hluta sem hefðu mátt betur fara á LM 2000. Þannig hefur það verið á flestum ef ekki öllum landsmótum frá upphafi.
Það er ekki hægt að líta framhjá því að Reykjavík er stærsta markaðssvæði landsins og tækifæri á markaðssetningu og kynningu hestsins og hestatengdrar þjónustu frábær.

Við hestamenn verðum að vega og meta bæði kosti og galla þess að halda landsmót í höfuðborginni. Og fyrir alla muni, myndið ykkur skoðun sem byggð er á vel ígrunduðum rökfærslum, hver sem skoðunin er.

Hilda Karen Garðarsdóttir