fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvernig tókst Landsmótið?

odinn@eidfaxi.is
23. júlí 2014 kl. 13:01

Sveinn Steinarsson formaður FHB. Ljósmynd: Valgerður Valmundsdóttir

Tilkynning frá Félagi hrossabænda.

Á stjórnarfundi Félags hrossabænda s.l. sunnudag var m.a. farið yfir hvernig stjórnarmönnum fannst til takast  á nýliðnu landsmóti á Gaddstaðaflötum, þar sem veðurskilyrðin voru vægast sagt erfið. Stjórnarmenn voru allir sammála að mótið hafi tekist allvel og rík ástæða væri til að þakka öllum þeim starfsmönnum sem að mótinu komu fyrir þeirra þátt, sem einkenndist af þrautseigju og dugnaði við að láta dagskrá mótsins  ganga upp. Það er líka ástæða til að þakka knöpum og eigendum þeirra hrossa sem þátt tóku í mótinu, fyrir þeirra framlag, en öllum má vera ljóst að á köflum var verkefnið mjög krefjandi. 

Óhætt er að segja að hestakosturinn  á landsmótinu hafi verið frábær og ný viðmið hafi verið sett þrátt fyrir aðstæðurnar.

Á  fundinum var einnig rætt um landsmótahaldið í þeirri mynd sem við þekkjum það og hvort ástæða væri orðin til breytinga. Stjórn mun leita eftir sjónarmiðum félagsmanna á haustdögum og mun þá væntanlega koma í ljós hver hugur manna er. 

Við hestamenn eigum sameiginlega þennan frábæra viðburð sem landsmótið er og við þurfum að hlúa að honum og fyrirkomulagi hans með jákvæðni í huga. Mörgum er tíðrætt um að skoða þurfi dagskrá, lengd og staðarval, undir það má taka en segja má að verkefnið að halda landsmót sé lifandi og að fyrirkomulag þess þurfi að endskoða á hverjum tíma. Ekkert er eðlilegra en að landsmótið  breytist í takt  við tímann og tíðarandann. 

Þökkum innilega öllum þeim sem lögðu sig fram í kringum landsmótið; starfsmönnum, þáttakendum og gestum.

F.h. stjórnar Félags hrossabænda

Sveinn Steinarsson formaður