laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvernig getum við bætt reiðmennsku?

16. nóvember 2016 kl. 13:02

Árni Björn og Skíma sigruðu gæðingafimi MD2016.

Hugleiðingar formanns FT

Ég held að gæðingafimi sé frábær leið til að bæta reiðmennsku og þjálfun.

Í meistaradeild eru margir góðir knapar, fyrirmyndir og áhrifavaldar í reiðmennsku. Sjónvarpsútsendingar með faglegum lýsingum hjálpa til, hestaáhugafólk hittist, horfir saman og skiptist á skoðunum um reiðmennsku. Í kjölfarið hefur gæðingafimin orðið ein mest spennandi greinin í meistaradeildinni á örfáum árum. Það reynir á knapana að undirbúa sig vel, þeir opinbera heimavinnu sína og kunnáttu. Gæðingafimin er spennandi áskorun, að sýna ákveðið margar fimiæfingar, lipurð, gangtegundir og flæði á nokkrum mínútum.

Oft skilja áhorfendur/knapar ekki einkunnir, ástæðan er augljós, það verður engin góður í að dæma, keppa, horfa á eða skilja grein sem er einu sinni á ári. Það er leitt að ekki skuli vera keppt oftar í gæðingafimi. Ég held við þurfum að koma greininni inn sem samþykktri keppnisgrein sem telur til stiga. Einnig þarf að einfalda leiðara og dómstörf. Útfærsla og skilaboð að hverju er verið að leita eftir þarf að vera skýrari til áhorfenda og keppanda. KS deild á norðurlandi hefur hætt við þessa grein vegna nokkura þátta, dýrt í framkvæmd v. dómarafjölda, áhugaleysi meiri hluta knapa og áhorfenda. Ég reyndar skil alls ekki afhverju þarf svona marga dómara? Til dæmis eru dæmd knapamerki m 2 dómurum/reiðkennurum um allt land.

Dæmd eru gæðingafimiverkefni sem próf á Háskólanum Hólum og Fjölbraut á Selfossi svo dæmi séu nefnd, þar dæma 2 reiðkennarar m 1 ritara.

Það þarf að einfalda leiðara, dómgæslu, útskýra leikinn. Greinin þarf að vera stigskipt þannig að hægt sé að keppa í léttari flokk( þá með einfaldari/færri skylduæfingar). Ég myndi vilja sjá þessa grein inn í áhugadeild, meistaradeild æskunnar og vil reyndar hvetja aðrar deildir/mótaraðir að bæta henni við. Þessi grein áskorun sem þroskar, eykur hugmyndaríki knapa og bætir reiðmennsku.

Með kærri kveðju. Súsanna Sand formaður FT