miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hverjir verða knapar ársins?

15. október 2011 kl. 16:46

Hverjir verða knapar ársins?

Hestamenn munu fagna viðburðaríku ári á Uppskeruhátíð hestamanna sem haldin verður 5. nóvember nk. á Broadway. Venja er að veita völdum hestamönnum viðurkenningu fyrir  afrek ársins og fylgir því jafnan nokkur spenna að sjá hverjir eru dregnir úr ört stækkandi hópi afreksknapa. Eiðfaxi fékk þrjá mæta hestamenn sem hlotið hafa viðurkenningu og tignarheitið „Efnilegasti knapinn“ á Uppskeruhátíðum sl. þriggja ára til að velta vöngum yfir viðurkenningum ársins.

Teitur Árnason, efnilegsti knapinn 2008:

“Árið 2008 var ég búinn að vera í skóla og hafði alltaf meðfram námi mikið af hestum í þjálfun. Um sumarið var ég svo í vinnu hjá Sigga Sig. Þar var maður í öllu, sýnd voru tugir kynbótahrossa, farið á alla skeiðleika, flest íþróttamót og gæðingamót. Svo gekk vel á Landsmóti. Ég keppti svo á Norðurlandamóti með ágætum árangri. Síðan gekk svo glimrandi vel á Íslandsmóti. Þetta sumar var mjög annríkt og lærdómsríkt og að vera heiðraður þessum titli eftir þetta var frábært. Það hvatti mig til frekari afreka, maður vissi að maður væri á réttri braut,” segir Teitur Árnason sem starfar nú við þjálfun hrossa á Árbakka hjá Hinriki Bragasyni og Huldu Gústafsdóttur.

Hann segist eiga erfitt með að gera upp á milli margra ungra og efnilegra knapa sem gætu hlotið viðurkenninguna í ár,  en á þó í minna basli við að týna til þá knapa sem hann telur hafa staðið fremstir meðal jafningja í ár:

Knapi ársins: Frábær árangur Hinriks Bragasonar er eftirminnilegur. Sýning hans á Landsmóti í A flokki á Óm frá Kvistum bar af. Hann stóð sig einnig mjög vel á Heimsmeistaramótinu og sýnilegur á öllum stærstu mótum. Reiðmennska og framkoma hans er til fyrirmyndar og það er er því enginn vafi í mínum huga að hann eigi þennan titil skilið.

Kynbótaknapi: Þórður Þorgeirsson ber af á þeim vængnum. Sýning hans á Spuna markaði tímamót og undirstrikar snilli Þórðar sem reiðmann. Þórður var einnig með flest hross á Landsmóti og maður sér að hann leggur sig alltaf 100 % fram.

Gæðingaknapi: :Það eru nokkrir sem koma til greina en ég held að Siggi Sig verði fyrir valinu. Hann keppir á öllum mótum og stendur sig jafnan vel. Siggi leggur sig allan fram í verkefnin og það var gaman að sjá hann á Kjarnorku í sumar. Keppnin var hörð í B-flokknum en Kjarnorka og Siggi höfðu alltaf yfirburði.

Íþróttaknapi: Það er ekki oft sem menn vinna Landmótstitil og verða Íslandsmeistar sama ár í sömu grein. Einnig er enginn sem hefur unnið fimm heimsmeistaratitla í tölti. Það eru því að mínu mati bæði Sigursteinn Sumarliðason og Jói Skúla sem eiga þennan tiltil skilið. 

Skeiðknapi ársins: Skeiðið í ár var frábært, en í minum huga eru það þrír knapar sem koma til greina. Beggi Eggerts. Raggi Tomm og Daníel Ingi.

Beggi er heimsmeistari og með svakalega tíma snemma í sumar á Lótusi í 250 metra skeiði. Raggi og Danni voru með svona einvígi sín á milli í allt sumar í 100 metra skeiðinu. Þeir skiptu sigrunum nokkuð jafnt á milli sín og tímarnir fóru alltaf batnandi. Ég spái því að þeir slái báðir heimsmetið í 100 metra skeiði á næsta ári. En árangur Begga á Lótusi er magnaður og alltaf batnar hesturinn - það er því Beggi sem verður skeiðknapi ársins.

Efnilegasti knapinn: Það eru margir mjög góðir ungir knapar hér í dag. Bæði Agnes Hekla og Arnar Bjarki stóðu sig frábærlega á Heimsmeistaramóti sem og á flestum mótum hér heima. Rakel Natalie vann Landsmót í gríðarsterkum ungmennaflokki og silfur í tölti og fjórgangi á Íslandmóti. Arna Ýr vinnur bæði tölt og fjórgang á Íslandsmóti. Helga Una landaði heimsmeistaratitli í 5 vetra flokki hryssna. Kári Steinsson vann 6 vetra flokk hryssna á Landsmóti.  Það er því mjög breiður hópur með frábæran árangur og erfitt að gera upp á milli en ég held að Rakel verði þó efst á blaði.

Linda Rún Pétursdóttir, efnilegasti knapinn 2009:

„Að vera kosin efnilegust var að sjálfsögðu mikill heiður og gríðarleg hvatning fyrir mig sem knapa. Þetta var uppskeran af mikilli vinnu sem skilaði sér í þessum titli. Þetta hjálpaði eflaust  til að það ár var ég kosin íþróttakona Mosfellsbæjar sem var einnig mikill heiður að hljóta,“ segir Linda Rún Pétursdóttir, efnilegasti knapi ársins 2009. Linda Rún kláraði reiðkennarnáið á Hólum í vor og starfar núna við tamningar, þjálfun og kennslu á Staðarhúsum í Borgarfirði.

Linda Rún segir það snúið að ætla að vera með getgátur um þá knapa sem munu koma til með að hljóta viðurkenningarnar á Uppskeruhátíðinni . „Við eigum heilan haug að gríðalega flottu fólki í fremstu röð og eins fullt af flottum efnilegum knöpum. Það eru margir sem ég tel vera vel að titlinum komnir og hlakka ég bara til að sjá hverjir það verða,“  segir hún en fékkst þó til að giska á væntanlega viðurkenningahafa.

Knapi ársins: Hér vil ég nefna tvo knapa, Hinrik Bragason fyrir frábæra sýningu í A-flokk á Óm frá Kvistum. Einnig vil ég nefna Sigurstein Sumarliðason þar sem hann er búinn að sýna snilldar takta með  Ölfu frá Blesastöðum.

Kynbótaknapinn: Það held ég nú að verði hann Þórður Þórgeirsson þar sem hann átti magnaðar sýningar á Landsmóti svo ég tali nú ekki um hann Spuna kallinn :)

Gæðingaknapinn: Hinrik Bragason mun koma sterkur þar inn að ég tel ásamt Sigurði Sigurðarsyni

Íþróttaknapinn: Sigursteinn Sumarliðason

Efnilegasti knapinn: Þar ætla ég nefna einnig tvo knapa sem ég tel að bæði séu vel að tiltlinum komin;  þau Helga Una Björnsdóttir og Kári Steinsson

Skeiðknapi: Danel Ingi Smárason fyrir alveg magnaðar sýningar í sumar. Einnig vil ég nefna  Begga Eggerts, hann á þennan titil vel skilið fyrir þriðja heimsmeistartitilinn sinn í röð á HM í sumar.

Hekla Katharína Kristinsdóttir, efnilegast knapinn 2010:

„Auðvitað er það mikill heiður að hljóta viðurkenninguna og óneitanlega skemmtilegt. Að vera efnilegur er gott út af fyrir sig - en svo langar manni að halda áfram og komast lengra,“ segir Hekla Katharína sem býr nú í borginni, stundar nám við Kennaraháskólann auk þess að spila körfubolta! Svo má líka sjá glitta í hana í Víðidal þar sem hún þjálfar nokkra hesta. En hún mun stoppa stutt við og fara norður á Hóla eftir áramót og klára reiðkennaranámið.

Hekla stekkur á milli þess að vera ægilega diplómatísk og pínulítið persónuleg þegar hún er spurð um mögulega viðurkenningarhafa í ár:

Knapi ársins: Hinrik Bragason, fyrir ótrúlegan árangur í ár. Hann er frábær knapi innan sem utan vallar og flott fyrirmynd.

Kynbótaknapinn: Ætli Þórður Þorgeirsson fái ekki þann titil. Þó hann hafi staðið sig afar vel í gegnum árin er þetta eftirminnilegt og gott ár fyrir hann, sérstaklega út af Spuna frá Vesturkoti.

Gæðingaknapinn: Ég er rokkandi milli Sigursteins Sumarliðasonar og Hinriks Bragasonar í þessum flokki, svo er Sigurður Sigurðarson þarna líka. Ég hreinlega veit ekki hvern ég myndi velja á endanum, en þeir eiga allir titilinn skilið.

Íþróttaknapinn: Ætli ég dragi ekki fram Jóhann Skúlason í þennan titil fyrir ótrúlegan árangur í tölti. Hvílíkur töltsnillingur!

Skeiðknapinn: Þarna er ég hörð á því hver ég vilji að hljóti þennan titil. Daníel Ingi Smárason sýndi það núna seinnipart sumars hversu góður skeiðknapi hann er og hve hestarnir hans eru orðnir rosalega vel undirbúnir og öflugir í hinum ýmsu greinum. Ég vona því að hann hljóti titilinn.

Efnilegasti knapinn: Þó hægt væri að kalla nokkra til þá vil ég hafa þetta svar á persónulegu nótunum. Rakel Nathalie Kristinsdóttir, hún vann ungmennaflokk á landsmóti eftir gríðarlega sterka keppni. Hún gerði ekki einungis það heldur var hún í 2. sæti bæði í tölti og fjórgangi á Íslandsmótinu í sumar sem er mikið afrek og frábær árangur. Mér finnst hún svo sannarlega eiga titilinn skilið.