laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hver vinnur gæðingafimina?

5. febrúar 2014 kl. 21:34

Guðmunda Ellen Sigurðardóttir, Valdís Björk Guðmundsdóttir, Arnór Dan Kristinsson, Dagmar Öder Einarsdóttir, Birgitta Bjarnadóttir og Kári Steinsson

Púlsin tekinn á yngri kynslóðinni.

Næsta keppni Meistaradeildarinnar er á morgun en þá verður keppt í gæðingafimi. Margir nýjir hestar eru skráðir til leiks og getur því allt gerst. Eiðfaxi ákvað að ræða aftur við spekingana okkar um síðustu keppnisgrein, fjórganginn, og spurja þá einnig út í gæðingafimina. 

Valdís Björk Guðmundsdóttir: Fjórgangurinn var skemmtilegur og gaman að sjá hvað flestir hestarnir voru orðnir góðir svona snemma. Það var líka gaman að sjá Óla og Hugleika vinna en mér fannst það svolítið óvænt. Hvað varðar gæðingafimina held ég að Guðmundur og Hrímnir séu sigurstranglegir en það eru margir spennandi hestar skráðir til leiks.

Arnór Dan Kristinsson: Mér fannst fjórgangurinn mjög flottur og það var magnað að sjá hvað hestarnir eru komnir í gott form í byrjun vetrar. Hugleikur var alveg frábær hjá Óla. Mér finnst gæðingafimin skemmtileg grein og gaman að sjá flott prógröm þar sem hestarnir eru sáttir. Ég held að Hrímnir og Guðmundur taki þetta en held samt líka að Olil og Sylvía verði ofarlega.

Dagmar Öder Einarsdóttir:  Ég held að Olil sé sigurstrangleg, hún kemur klárlega með flotta sýningu og frábæra reiðmennsku. Síðan hlakka ég mikið til að sjá Hrímni hjá Guðmundi og einnig held ég að Eyrún komi með frábæra sýningu á Kjarval. Rosalega flott par, hesturinn í góðu standi, sjarmerandi og töff. Þessi þrjú eru þau sem ég held að verði að berjast um efsta sætið. Varðandi fjórganginn þá fannst mér hann mjög skemmtilegur og spennandi. Það var mjög gaman að sjá Óla og Hugleik en það sást alveg að þeim leið báðum vel inn á vellinum og skiptir það miklu máli að mínu mati. Olil var líka rosa flotta, frábær sýning og falleg reiðmennska. Mér fannst Þórdís líka standa sig mjög vel og hefði ég viljað sjá hana aðeins hærri

Birgitta Bjarnadóttir:  Guðmundur og Hrímnir verða mjög sterkir í þessari grein ásamt Þorvaldi og Stjörnu. Ég held að Olil muni eiga góða sýningu og vera ofarlega ef allt gengur vel, hún er góð í gæðingafimini og hestarnir alltaf vel undirbúnir hjá henni. Ég er líka spennt að sjá Sylvíu og Héðinn Skúla búin að heyra að þau séu í feiknaformi. Ég sá ekki fjórganginn seinast en fór á netið í símanum eftir forkeppnina og það kom mér rosalega á óvart hvernig röðin var en gaman að sjá nýja hesta styrkjast, bæta sig og ganga vel á nýju ári og blanda sér í toppbaráttuna. Hugleikur og Óli áttu þetta svo sannarlega skilið og alltaf gaman þegar allt erfiðið skilar sér á réttum tímum

Kári Steinsson: Fjórgangurinn fannst mér mjög spennandi og gaman að sjá hvað það eru að koma upp margir ungir og spennandi fjórgangshestar. Hvað varðar gæðingafimina þá held ég að Olil sé sigurstranglegustu.

Guðmunda Ellen Sigurðardóttir: Ég get eiginlega ekki svarað þessari spurningu, það eru svo margir ungir og óreyndir hestar sem eru að feta sín fyrstu skref í keppni. En ef ég ætti að skjóta myndi ég veðja á fjóra hesta sem mér finnst líklegir að þessu sinni; Héðinn Skúli frá Oddhól, Jarl frá Miðfossum, Greifi frá Holtsmúla eða Stjarna frá Stóra-Hofi. En svo er Hrímnir líka mjög sterkur.