miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hver vinnur fjórganginn?

23. janúar 2014 kl. 10:50

Guðmunda Ellen Sigurðardóttir, Valdís Björk Guðmundsdóttir, Arnór Dan Sigurðsson, Dagmar Öder Einarsdóttir, Birgitta Bjarnadóttir og Arnór Dan Kristinsson

Púlsinn tekin á yngri kynslóðinni.

Eins og flestir hafa tekið eftir er Meistaradeildin að hefjast í kvöld kl. 19 og hefst keppnin á fjórgangi. Eiðfaxi fór á stúfana og spurði yngri kynslóðina aðeins út í mót kvöldsin og stóð  ekki á svörum. Öll voru þau sammála um að gaman væri að fá ný andlit í deildina og flestir töldu þá Hlekk frá Þingnesi og Eyjólf Þorsteinsson sigurstranglegasta. 

Arnór Dan Kristinsson:

Ég held að Eyjólfur og Hlekkur taki fjórganginn en þeir hafa verið að gera það mjög gott og svo unnu þeir hann í fyrra. Ég held samt að Sigurður Sigurðarson vinni deildina. Það verða margir góðir hestar og er ég mjög spenntur að sjá þá Sigga, Árna Björn, Eyjólf og Viðar.

Guðmunda Ellen Sigurðardóttir:

Ég held að Loki og Hlekkur gætu orðið sterkir ef allt gengur upp í sýningunum, annars er mikið af hrossum sem ég hef ekki séð mikið og það verður spennandi að sjá þá. Ég hlakka mikið til að sjá Vaðal frá Akranesi, flottur klárhestur með frábært tölt!

Dagmar Øder Einarsdóttir

Það eru margir góðir hestar og knapar svo þetta á eftir að verða hörð keppni. Ég hef trú á að Loki  frá Selfossi og Siggi Sig vinni og að Hlekkur og Eyjólfur verði í öðru. Þessir tveir slást klárlega um fyrsta sætið en ég er spennt að sjá þá báða þeir eru flottir knapar og vel ríðandi. Mér finnst gaman að fylgjast með Meistaradeildinni og sjá fallega reiðmennsku og flottar sýningar. Ég hlakka til að sja Olil Amble og Berg Jónsson, þar sem ég held að þau komi með flottar sýningar. En þetta kemur allt í ljós þegar á völlinn er komið.

Kári Steinsson

Hæ ég held að Hlekkur og Eyjólfur vinni. Ég sá hann á æfingu og þeir litu út fyrir að vera jafnvel betri en í fyrra. Ég er einnig mjög spenntur að sjá Prest frá Hæli, vin minn, hjá Viðari.

Birgitta Bjarnadóttir

Eg held að Eyjólfur taki þetta en Sigurður Sigurðarson komi þar fast á eftir. Einnig held ég að Guðmundur Björgvinsson muni koma mjög á óvart með nýjann hest Tenór frá Stóra-Ási en ég er spennt að sjá þá félaga saman í fullu fjöri. Það verður líka gaman að sjá Ísólf Líndal með sinn hest, Kristófer, sem er búinn að vinna deildina fyrir norðan seinustu tvö ár.

Valdís Ýr Guðmundsdóttir

Ég held að Eyjólfur og Hlekkur vinni fjórganginn en þeir sigruðu fjórganginn í fyrra og eru mjög sterkir. Einnig er ég mjög spennt að sjá hvernig þeir Loki frá Selfossi og Stormur frá Herríðarhóli verða.