þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hver ríður á feti til himnaríkis?

25. júní 2011 kl. 14:07

Hver ríður á feti til himnaríkis?

Guðmundur Hermannsson, kenndur við Fjall í Skagafirði. er hestamaður af gamla skólanum. Hann var kennari í Varmahlíð í 27 ár og bóndi á Fjalli með óteljandi hross og nokkur sauðfé. Handverk Guðmundar hefur verið þekkt meðal Skagfirðinga en nú mun Guðmundur halda sölusýningu á Markaðstorgi Landsmóts, þar sem hann mun selja hnífa sem hann tengir við ræktun sína á Fjalli. Einkenni hnífanna eru hesthausasköft sem hann tálgar úr hreindýrshorni, náhvalstönn, geitarhorni frá Agnari á Miklabæ, kýrhorni og elgshorni. Utan um hnífanna hefur hann svo gert leðurhlustur sem á eru ristar rúnir hrossa úr ræktun hans á Fjalli. Sölusýning Guðmundar verður inn í bás Önnu á Hjaltastöðum á Markaðstorgi Landsmóts, en sjálf mun Anna vera með hestavörusýningu á hinum ýmsum nauðsynjavörum hestamannsins.

Guðmundur er, eins og allir Skagfirðingar vita þverhaus með afbrigðum, og hafði sérstakar skoðanir á hrossum og hrossasýningum. Hann var til að mynda gæðingadómari í 20 ár frá 1973-1993 en þoldi ekki að láta dæma hrossin sín sjálfur, því hann vissi alltaf betur. Guðmundur segist hafa stuðlað að því að Hrímnir frá Hrafnagili var efstur á Landsmóti 1982 ásamt öðrum dómurum að sjálfsögðu. “Ég gaf honum 9,8 fyrir fegurð í reið og sé eftir að hafa ekki gefið honum 10. Einkunnina 9,6 gaf ég honum fyrir vilja og fékk skammir fyrir. Hrímnir stendur alltaf upp úr þótt fetið væri slakt - en hver ríður á feti til himnaríkis? Þetta var ekki íþróttakeppni svo við höfðum dálítið val á persónulegu mati gæða. Vængur frá Kirkjubæ var líka góður og flottur en grófari.”

Meira í nýjasta tölublaði Eiðfaxa.