miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hver man ekki eftir þessum? - Manni frá Vestri-Leirárgörðum

29. október 2011 kl. 09:17

Hver man ekki eftir þessum? - Manni frá Vestri-Leirárgörðum

Það fór mikið fyrir fasmiklum móálóttum gæðingi og prúðri sveitastúlku í dreyrrauðum jakka á mótum á árunum 1996-2000. Karen Líndal Marteinsdóttir og Manni frá Vestri-Leirárgörðum voru þá nær ósigrandi keppnispar í fjórgangskeppnum yngri flokka. Þau urðu margfaldir Íslandsmeistarar, sigruðu Fjórðungsmót og Landsmót. 

 
Keppnisferillinn var þó langt í frá snuðrulaus. Á leiðinni á Landsmót 1998 lentu Karen og fjölskylda í árekstri með þeim afleiðingum að hestakerran losnaði aftan úr bílnum. Í kerrunni var Manni sem kenndi sér þó einskis meins eftir volkið og stóðu þau uppi sem sigurvegarar unglingaflokks nokkrum dögum síðar. Á Landsmótinu árið 2000 sigruðu Karen og Manni enn á ný á dramatískan hátt. Að loknum úrslitum lutu Karen og Manni í lægra haldi eftir einvígi við Matthías Barðason og Ljóra frá Ketu sem krýndir voru sigurvegara ungmennaflokks. Síðar kom í ljós að annmarki var á útreikningum tölvukerfis og enn einn sigur Manna og Karenar í höfn.
Manni lauk glæsilegum keppnisferli árið 2001 en lifir í dag góðu lífi, 23 vetra gamall í Leirársveitinni og töltir enn snyrtilega með unga og upprennandi hestamenn á baki. Sjálf er Karen búin að sanna sig sem afburðartamningamaður, hún hefur lokið tveimur árum við Hestafræðibraut Háskólans á Hólum og hlaut m.a. Morgunblaðsskeifuna fyrir besta samanlagðan árangur í reiðmennsku árið 2008. 
 
Eiðfaxi fékk Kareni til að rifja upp feril Manna gamla.
 
Naut sviðsljóssins
 
 „Fyrsta mótið okkar saman var Íslandsmót í hestaíþróttum í Borgarnesi árið 1995. Þá vorum við nú bara að fara til að vera með og æfa okkur, en það gekk rosalega vel og við enduðum í 2. sæti í fjórgangi og 4. sæti í tölti sem kom mér skemmtilega á óvart. Við urðum við Íslandsmeistarar árið á eftir í fjórgangi og vorum í 3. sæti í tölti, í unglingaflokk. Svo urðum við aftur Íslandsmeistarar í fjórgangi 1997 og 1999. Við kepptum tvisvar sinnum á Landsmóti, árið 1998 og 2000, og sigruðum í bæði skiptin, fyrst í unglingaflokki og síðar í ungmennaflokki. 
 
Manni hætti keppni árið 2001 að mig minnir - en þá var hann kominn með kvíslbandsbólgu og okkur var ráðlagt að gefa honum frí í a.m.k. ár. Við gerðum það en þá kom í ljós að hann var spattaður líka og var orðinn haltur svo hann hefur ekki verið notaður í keppni aftur - enda búinn að gera það gott,“ segir Karen en faðir hennar, Marteinn Njálsson, gaf henni klárinn í kjölfarið af öðrum Íslandsmeistaratitlinum.
 
Hún lýsir Manna sem skapstórum hestur og miklum karakter. „Það var alltaf gaman að vinna með hann þó að auðvitað kæmu erfið tímabil inn á milli. En góðu dagarnir voru alltaf mun fleiri. Svo var alltaf það skemmtilega með Manna að það var eins og hann nyti þess að vera í sviðsljósinu og sýna sig. Hann var eiginlega alltaf í stuði þegar að við vorum að keppa.“
 
„Nóg að gera hjá Manna karlinum“
 
Það er ekki nema von að Manni og stórkostlegur keppnisferill þeirra sé gagnleg uppspretta þekkingar fyrir Kareni enn þann dag í dag. „Manni kenndi mér fyrst og fremst að vera þolinmóð, það þurfti semja við hann og passa að hafa hann með sér, hann lét mann alveg vita þegar hann var ekki sáttur. Hann kenndi mér líka að góð grunnvinna skilar sér alltaf; að leggja alltaf nóg inn á bankann svo að það sé eitthvað til að taka út þegar að þörf er á,“ segir Karen og efast ekki um að Manni myndi standa sig í keppnum ef hann væri upp á sitt besta í dag. „Hann hafði svo góðar og jafnar gangtegundir og mikla útgeislun, allt sem góður keppnishestur þarf að hafa.“
Manni kemur úr ræktun fjölskyldunnar að Vestri-Leirárgörðum, undan Ófeigi frá Hvanneyri og Helgu-Dís frá Vestri-Leirárgörðum sem hefur reynst góð ættmóðir. „Systir Manna, sammæðra, er Óskadís frá Hafnarfirði. Hún er góð meri og hefur verið að gefa góð hross. Heljar frá Hemlu II er t.d. undan henni. Manni átti sjálfur eitt afkvæmi en það bar ekki mikið á Mannalegum töktum þar,“ segir Karen.
 
Síðan Manni lauk sigursælum keppnisferli sínum hefur hann þó haft nóg fyrir stafni. „Manni er alltaf járnaður á sumrin og er aðeins í trimmi. Ég teymi hann svolítið og svo fá börn bræðra minna að ríða út á honum. Núna í sumar fór sonur minn á bak á honum með mér. Þannig að það er nóg að gera hjá Manna karlinum.“