mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hver man ekki eftir þessum? -Kolskeggur frá Ásmundarstöðum

20. október 2011 kl. 16:12

Hver man ekki eftir þessum? -Kolskeggur frá Ásmundarstöðum

Nafn heimasætu frá Ásmundarstöðum og skörungslegum bleikálóttum Ófeigssyni frá sama bæ bar oft á góma á því herrans ári 1991. Maríanna Gunnarsdóttir og Kolskeggur frá Ásmundarstöðum gerðu þá garðinn frægan með því að sigra hvert mótið á fætur öðru í unglinga- og ungmennaflokki. Þau urðu m.a. Íslandsmeistarar, Reykjavíkurmeistarar, Bikarmeistarar, Suðurlandsmeistarar og Framhaldsskólameistarar. Gæðingurinn var svo fulltrúi Íslands á HM 1995 í Sviss, þar sem Vignir Jónasson sat hann og uppskáru þeir 5. sæti í tölti og 6. sæti í fjórgangi. Þessi eftirminnilegi höfðingi er nú 29. vetra og býr í Þýskalandi.

Fjölhæfur gæðingur

Kolskegg fékk Maríanna í fermingargjöf 1989 frá foreldrum sínum. „Ég held að ég hafi brosað allan hringinn þann dag og marga daga á eftir. Svo ánægð var ég með gjöfina. Hann var í raun og veru minni fyrsti keppnishestur og lærði ég því margt af honum. Ég gleymi því aldrei þegar ég fór ung og saklaus og keppti á mínu fyrsta stóra móti þ.e. úrtöku fyrir LM 1990 í Fáki. Ég var þá með þennan frábæra hest í höndunum en stressuð fram úr hófi og var alltaf að horfa niður fyrir mig á fótaburðinn, athuga hvort hann lyfti ekki nóg. Það hefur ábyggilega verið hryllingur að horfa á mig og fékk ég mjög bágt fyrir ásetu og komst ekki í hópinn inn á LM. Eftir þetta kom Sigurbjörn Bárðarson að máli við pabba og bauð honum að aðstoða mig með hestinn næsta vetur. Svo varð úr að við vorum í tímum hjá Didda allan veturinn 1991 með þessum frábæra árangri og vorum við reglulega hjá honum eftir það. Hann á stóran þátt í okkar góða árangri saman.“
 
Árangur af þjálfun og kennslu Sigurbjarnar lét ekki á sér standa og urðu Maríanna og Kolskeggur sigursælt keppnispar. „Hæst ber árangurinn á Fjórðungsmótinu 1991 á Hellu þar sem við sigruðum unglingaflokkinn með 9,03 í aðaleinkunn sem er, að ég held, enn þann dag í dag önnur hæsta einkunn sem gefin hefur verið í unglingaflokki á stórmóti. Hæstu einkunnina hlaut mín góða vinkona Edda Rún Ragnarsdóttir á LM 1990, á Sörla frá Norðtungu eða 9,04.
 
Við Kolskeggur vorum einnig í B-úrslitum í tölti á Fjórðungsmótinu. Held ég gleymi seint stemmingunni að ríða töltúrslitin á föstudagskvöldinu. Það var enginn smá heiður að vera „15 ára smástelpa“ inn á vellinum með öllum stóru nöfnunum. Siggi Sæm var þulur og fór á kostum - hann var í minningunni örlítið hlutdrægur mér í hag þar sem ég var í raun og veru á heimavelli þó ég hafi keppt fyrir Fák.
 
Árið 1992 hlutum við Gregersen styttuna í Fáki á 70 ára afmælismóti félagsins þar sem fulltrúum frá öllum félögum á landinu var boðin þátttaka í gæðingakeppninni og vorum við í A-úrslitum í B-flokki og ef ég man rétt lenti ég í 7. eða 8. sæti og var þriðji efsti Fáksmaðurinn í þeim úrslitum.“
 
Maríanna segist engan vafa leika á því að Kolskeggur stæði sig með prýði á keppnisvellinum ef hann væri upp á sitt besta í dag.  „Eins fjölhæfur gæðingur og hann var, og er, held ég að hann myndi standa sig vel. Hann myndi örugglega gera betur í íþróttakeppni en gæðingakeppni.“
 
Erfið kveðjustund
 
„Kolskeggur var frábær karakter og áttum við margar góðar stundir saman bæði innan vallar sem utan og lærðum við heilan helling hvort af öðru. Við fórum í mörg ferðalögin saman en hann var kannski ekki besti ferðahestur í heimi, stórstígur og hastur á brokki, þannig að ég valdi mér alltaf bestu leiðirnar til að ríða honum - en alltaf kom hann með.
 
Að lokum seldi ég Didda svo Kolskegg. Þrátt fyrir að hafa verið búin að selja hann var alltaf gott að vita af honum hjá Didda í næsta húsi veturinn 1995. Ég fór reglulega og naut gæðastunda með honum. Vignir Jónasson, sem þá starfaði hjá Didda, fór með hann út á HM í Sviss 1995. Ég man eftir kveðjustundinni á lokadegi á HM. Þá fór ég út í hesthús að kveðja hann og féllu þá ófá tár.“
 
Að sögn Maríönnu keyptu læknishjón í Þýskalandi Kolskegg og var hann frúarhesturinn og lifir góðu lífi hjá þeim. „Ég frétti alltaf af honum reglulega í gegnum Didda og hittust þeir félagar síðast í vor og var hann þá í góðu standi þrátt fyrir að vera orðinn 29 vetra. Ég held hann hafi ekki verið mikið notaður í keppni, en ég man þó eitt atvik þegar hann keppti nokkrum árum seinna á HM og hafði þá verið lánaður til Bandaríkjamanna. Ég grét við að sjá þessa elsku aftur.“
 
„Svo segja blöðin“
 
Í 7. tbl. Eiðfaxa frá því herrans ári 1991 tók Sigurður Sigmundsson þetta vasklega viðtal við Maríönnu, þegar hún hafði sigrað flokk eldri unglinga á Fjórðungsmótinu. Var þá um það talað að stúlkunni hafi boðist fjárfúlga fyrir gæðinginn:
 
-Þá er fyrst að spyrja þig um uppruna þinn?
„Ég er fædd að Ásmundarstöðum í Holtum og er 15 ára. Foreldrar mínir eru Vigdís Þórarinsdóttir og Gunnar Jóhannsson sem bjuggu þar en við fluttumst til Reykjavíkur þegar ég var 9 ára gömul. Ég fór snemma að fara á hestabak og lærði af hestunum heima á Ásmundarstöðum. Eftir að ég flutti til Reykjavíkur fór ég að fara á reiðnámskeið og einnig í Vestra-Geldingaholt og síðasta vetur var ég á námskeiðum hjá Sigurbirni Bárðarsyni og ég á honum mikið að þakka, hann er frábær kennari.“
-Hvenær fórst þú að keppa á hestamótum?
„Ég keppti fyrst árið 1989 og það hefur bara gengið vel. Nú í vor varð ég Reykjavíkurmeistari í tölti og fjórgangi, en í fjórða sæti á Hvítasunnumótinu. Í fyrra varð  ég efst á bikarmótinu í Reiðhöllinni.“
-Hvernig er Kolskeggur kominn í þínar hendur?
„Hann er fæddur hjá okkur á Ásmundarstöðum, undan Ófegi 882 frá Flugumýri og Hrefnu 5183 frá Heiði í Gönguskörðum. Kristján Kristjánsson á Hellu tamdi hann en ég fékk Kolskegg í fermingargjöf fyrir tveimur árum. Þetta er töluverður skaphestur og getur verið svolítið trekktur en hann er nokkuð öruggur ef hann hefur góðan völl.“
-Er það satt að þú hafir fengið hátt verðtilboð í hann en hafnað því, verið ákveðin í að láta hann ekki?
„Svo segja blöðin.“
-Varst þú taugaóstyrk fyrir keppnina?
„Já, það var ég, en þó bjuggum við bæði vel að leiðbeiningum frá Sigurbirni í vetur og þetta er skemmtileg keppni.“
-Ég heyrði minnst á kæru vegna þinnar þátttöku?
„Já, en ég sá hana aldrei og vissi lítið um það. Það voru einhverjir sem lögðu fram kæru á þeim forsendum að hesturinn tæki einnig þátt í skeiðkappreiðunum með öðrum knapa. Það var allt á misskilningi byggt því tekið hafði verið feil á skeiðhestinum Ál og Kolskegg mínum.“
 
Innt eftir þessu umtalaða tilboði í Kolskegg árið 1991 svarar Maríanna því að það hafi verið uppspuni frá rótum blaðamanns Morgunblaðsins. „Í minningunni voru þau nú ekki mörg tilboðin sem komu til mín. Einhver blaðamaður skrifaði um það að ég hefði fengið há tilboð í hann og hafnað þeim en þau bárust mér aldrei enda var hann ekki til sölu fyrr en á þeim tíma sem Diddi keypti hann og kominn var tími á að finna mér nýjan keppnishest.“
 
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá eftirminnilegum ferli Kolskeggs frá Ásmundarstöðum.