laugardagur, 23. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hver er Arna frá Skipaskaga?

5. apríl 2015 kl. 15:35

Sigurvegarar Allra sterkustu 2015, Sigurður Sigurðarson og Arna frá Skipaskaga.

Óvænta stjarna hinna Allra sterkustu

Fyrirfram þóttu þau ekki sigurstranglegustu keppendur töltmótsins Allra Sterkustu. En Sigurður Sigurðarson og Arna frá Skipaskaga stóðu uppi sem verðskuldaðir sigurvegarar á þessu glæsilega móti og stjarna kvöldsins var hinn stórskemmtilega Arna sem heillaði bæði dómara og áhorfendur með fasi sínu og fjöri.

Arna kemur frá ræktunarbúinu Skipaskaga sem hefur verið meðal fremstu ræktunarbúa landsins. Að baki ræktuninni standa hjónin Jón Árnason og Sigurveig Stefánsdóttir á Akranesi og hafa þau hlotið fjöldamörg verðlaun fyrir hross sín og ræktunarstarf

Arna er fædd 2006 undan Hreimi frá Skipaskaga og Glímu frá Kaldbak. Hreimur eru undan Orra frá Þúfu og heiðursverðlaunahryssunni Kviku frá Akranesi. Hann var aldrei sýndur, en seldur til Svíþjóðar árið 2008. Tvö afkvæmi hans hafa hlotið fullnaðardóm og er Arna það hærra dæmda. Glíma er fyrstu verðlauna hryssa undan Geysi frá Gerðum og Möðru frá Möðrudal. Glíma uppfyllir lágmörk til heiðursverðlauna fyrir afkvæmi, enda hafa fimm af sex dæmdum afkvæmum hennar hlotið fyrstu verðlaun í kynbótadómi.

Arna hlaut sinn hæsta kynbótadóm árið 2013, þá fékk hún 8,10 í aðaleinkunn. Hún hlaut 8,57 fyrir sköpulag, þar af 9 fyrir háls/herðar/bóga og samræmi. Árið 2011 fékk hún hins vegar 8,64 fyrir sköpulag. Arna er klárhryssa sem hæst hefur hlotið 7,78 fyrir kosti, og er þar með nokkuð jafnan dóm einkunnina 8,5 fyrir tölt, brokk, vilja og geðslag, fegurð í reið og hægt stökk.

Logi Þór Laxdal kom með Örnu fyrst fram í keppni í fyrra, m.a. á Reykjavíkurmeistaramóti Fáks og á WR íþróttamóti Harðar. Þá komu þau fram á Landsmóti í B-flokki og tölti, og voru meðal 30 efstu hrossa í B-flokki.

Þetta var hins vegar fyrsta mót Örnu undir stjórn Sigurðar Sigurðarsonar og höfðu skeleggir á orði að Arna líktist að mörgu leyti Kjarnorku frá Kálfholti, keppnishryssu Sigurðar til margra ára. Enda ekki að undra, Arna er glæsileg á velli, framfalleg og fasmikil og verður spennandi að fylgjast með henni.