föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvar verður normið til?

5. október 2019 kl. 09:00

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Í nýjasta tölublaði Eiðfaxa, sem kom út í þessari viku, má finna nýjan lið sem ber nafnið Hestasteinninn

Í hestasteininn gefst þeim, sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri, tækifæri á að rita greinar þar sem hrósa má því sem vel er gert eða deila á það sem betur má fara í hestamennskunni hverju sinni. Það er val höfunda hvort þeir birti greinina nafnlaust eður ei.

Það er á ábyrgð ritstjóra blaðsins að ekki sé um meiðyrði að ræða heldur eðlilega gagnrýni á það sem ritað er um hverju sinni. Við birtum hér þessa grein í heild sinni eins og hún birtist í Eiðfaxa.

 

Að fara á hundleiðinlega bíómynd sem fengið hefur góða dóma hvað gagnrýnendum varðar er sérstök upplifun. Inn í manni brýst út sú tilfinning að maður hafi ekki vit á því sem fyrir augu bar því að ekkert í upplifuninni ber saman við það sem sérfræðingar í kvikmyndum segja. Eins er það stundum með upplifun mína á hestamennskunni. En hver segir hvað er rétt og rangt? Þarf eitt viðhorf að þýða að annað viðhorf sé rangt? Hvar verður það sem er rétt til og hver býr til „normið“ í hestamennskunni?

Það er áhugavert að skoða myndbrot af eldri sýningum hrossa og bera þau saman við það sem er í gangi í dag. Form hestanna var frjálslegra, fótaburður almennt minni og breytileikinn í sýningum meiri en hann er í dag. Margir hverjir sýndu sín hross sjálfir, áhorfendabrekkur voru þéttsetnar og menn sáust jafnvel brosa við.

Í dag kveður við öllu alvarlegri tónn í hestamennskunni, glerhörð atvinnumennska, höfuðið í lóð, fótaburður og ekkert kjaftæði. Talað er um markaðsvæn hross með fallega byggingu, fas og fótaburð sem skila ræktendum sínum helst sem mestum hagnaði. Önnur hross eiga vart tilverurétt hjá þeim sem hæst láta. Í þessari vegferð helgar tilgangurinn meðalið og þeir sem stýra þessari vegferð stunda hagsmunapot, hrossakaup á skoðanamyndandi stöðum eins og Landsþingi LH þar sem hagsmunaaðilar tryggja að sín skoðun og stefna verði ofan á. Keppnisfólk og hagsmunaverðir þeirra hafa komið sér fyrir í keppnisnefndum hér heima og annars staðar með þeirri niðurstöðu að keppnin er orðin langdregin og illskiljanleg fyrir tómum áhorfendabrekkum. Flest gagnrýni á þetta kerfi er illa séð. Einstaka nettröll þora að viðra skoðun sína sem jafnan endar á því að þeir fá flesta upp á móti sér en þeir sem eru með réttu skoðanirnar fussa yfir þessum mönnum og vinna að sínum hagsmunum á bakvið tjöldin. Þetta er ástand sem allir kannast við en telja óforbreytanlegt enda eru þeir sem svo mikið sem vilja að málin séu rædd jafnan kveðnir í kútinn.

Hvaðan kom til dæmis þessi bylgja að ríða hestum svona samanklemmdum í nafni burðar og réttrar líkamsbeitingar? Það hefur verið til siðs hjá flestum af okkar fremstu keppnisknöpum að ríða hægt tölt mun hægar en gert var með neflínuna helst ekki yfir lóðlinu. Hestarnir eru píndir niður á fetferð og þegar þekktur hestamaður fór að bera þetta saman við hlaupandi fet eins og þekkist í stórum ganghestum vestan Atlandsála þá tók þessi hópur því vægast sagt illa. Að horfa á hross í þessu formi, með taglslátt og eyrun aftur á hálsi er skrýtin sjón og hvað þá þegar endurtekið horft er framhjá taktgöllum í töltinu svo lengi sem nógu hægt sé farið, í sem mestum fótaburði, með höfuðið í lóð. Hvaðan kom það að þetta sé gott?

Hvaðan kom að keppni í tölti T1 væri löturhægt tölt eins og fyrr er lýst, hraðabreytingar og aðeins hraðara tölt? Það var umræða um greitt tölt fyrir nokkrum árum og snérist hún um að yfirferðartöltið í T1 ætti ekki að vera dæmt með radarmæli. Ekki ætti að gefa hraðasta töltinu hæst og dómarar yrðu að hætta þessari hraðadýrkun. Þetta var þörf umræða en ekki má rugla saman hesti sem getur auðveldlega rýmkað á sér og þeim sem skælt er áfram langt út fyrir sína getu. Er rétt að eðlis flugrúmur hestur fái ekki hærra en sá rýmisminni eða er rými að verða hálfgert tabú í keppni?

Hvaðan kom að skeið væri best riðið í hárri reisingu, miklum fótaburði og handapati? Skeið er samkvæmt lýsingu tvítakta yfirferðargangtegund. Oft nefna menn Náttfara frá Ytra-Dalsgerði sem nokkurs konar skapalón fyrir hvernig skeið skal vera. Þar strekkir hesturinn yfirlínuna, knapinn sýnir yfirvegun, áræðni og treystir hestinum til að skeiða án óþarfa leiðréttinga. Skrefið er rúmt, ferðin góð og sniðið fallegt. Í seinni tíma hefur tíðkast að halda hestum háum, endurteknar óþarfa ábendingar og svo ekki sé talað um ósiðinn að klára ekki spretti heldur í sjálfumgleði að veifa út í loftið. Þetta ásamt því að enn sé verið að reyna að leggja hesta á litlum hringvöllum í íþróttakeppni sem eru víst svona litlir því að ekki var pláss fyrir stærri völl þar sem hann var fyrst settur upp er enn og skrítnara.

Hvaðan kom að ríða fimi án tilgangs og að lausnin væri að hægja niður, inn á baug og enda með hest án framhugsunar? Í samtali við reiðkennara sem reglulega fer í kennsluferðir út sagði hann að rót vanda flestra sem hann kennir er að knapinn hefur misst framhugsunina í hestinum. Kennslufræði þeirra sem fara um héruð er jafnan að kenna nemendum fimiæfingar en þjóna engum tilgangi því að nemandanum er ekki kennt að tengja þær við þau vandamál sem upp koma í almennri notkun; almennum útreiðum. Vinna á baug, eða fimiæfingar eru góðar þegar markmiðið/tilgangurinn er ávalt skýr en þegar það er ekki og framhugsun skortir viðhaldast vandamálin. Hestur sem ekki hugsar fram fer að hugsa um annað. Verður jafnvel stífari en hann er í raun. Verður jafnvel líka sjónhræddur, fúll og jafnvel fer að bera á kergju. Það er kannski fínt fyrir reiðkennara að fara hver eftir öðrum og halda námskeið í tilgangslausum fimiæfingum þar sem neminn fær litla lausn á sínum vandamálum við daglega brúkun til þess að næsti kennari geti svo komið og kennt nánast það sama upp á nýtt. Svo gengur þetta hring eftir hring. Kennarinn hefur nóg að gera og nemandinn engu nær?

Hvaðan kom það að eðlilegt væri að aukinn hluti fjárhags hestamannafélaga fari í þá fáu sem stunda keppnishestamennsku? Á fundi sem haldin var á dögunum nefnir Halldór Viktorsson íþróttadómari það að mótahald sé rekið að mestu á sjálfboðastarfi þeirra sem ekki keppa. Er það eðlilegt? Jafnframt má spyrja hvort eðlilegt sé að svo stór hluti fjármagns þess sem hestamannafélögin hafa úr að moða fari í keppnishestamennsku. Þetta tvennt ber að sama brunni. Þeir sem stunda keppnishestamennsku sjá flestir ekki að þeir þurfi að leggja á sig í starfi fyrir félögin. Það er sjaldgæf sjóna að sjá þetta fólk í almennri vinnu fyrir félagið sitt og þegar til þeirra er leitað vegna kennslu eða annars er jafnan rukkað fullt verð. Fyrrnefndur Halldór nefndi í máli sínu að keppandi í Noregi sem skráir á mót verður þá að leggja ákveðnar vinnustundir fyrir félagið sitt á móti til að keppnishaldið gangi upp. Væri þetta ráð? Væri líka ráð að keppnisfólk mundi borga í skráningargjöld það sem mótahaldið kostar ef ekki komi til vinnuframlags eins og hér er nefnt?

Það sem er, var og hefur verið verður oft að eðlilegum hlut. Það kerfi sem við búum við er mannanna verk og því er hægt að breyta. Það er nauðsynlegt að rýna í það sem er og sjá hvað betur má fara. Ósiðinn að níða niður verk annarra án þess að koma með tillögu að lausn er ekki gangrýni. Rökfræði hestamanna er oft ekki á háu plani. „Rökfræði fjallar um það hvenær eina setningu, sem við köllum niðurstöðu, leiðir af öðrum setningum, sem við köllum þá forsendur.“ Ansi oft eru forsendur þess sem rökrætt er skakkar og skældar og niðurstaðar fengin út frá þeim. Það virðist oft vera tilgangur rökræðnanna hestamanna að ein skoðun verði ofan á. ÍÞRÓTTAKEPPNI ER BETRI EN GÆÐINGAKEPPNI, KLÁRHESTAR ERU VERÐMÆTARI EN ALHLIÐAHESTAR, GADDSTAÐAFLATIR ERU BETRI EN HÓLAR. Svo eru missterkar forsendur settar fram og niðurstaða umræðnanna á að verða að annað sé rétt og hitt rangt. Getur ekki verið að annað hvort bæði eða hvorugt sé betra?