fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvar verður Landsmót 2012?

25. janúar 2010 kl. 13:07

Hvar verður Landsmót 2012?

Fram hefur komið í fjölmiðlum að undanförnu að stjórn LH sé í viðræðum við Hestamannafélagið Fák í Reykjavík um að halda Landsmót 2012 á svæði félagsins í Víðidal. Ekki hefur verið tekið endanleg ákvörðun um mótstað, en áætlað að viðræðunum ljúki í lok febrúar. Ef ekki verður gengið til samninga við Fák verða að öllum líkindum teknar upp viðræður við Hestamannafélagið Geysi um að halda mótið á Gaddstaðaflötum við Hellu.

Sú ákvörðun LH að ganga til viðræðna við Fák olli miklum vonbrigðum í Geysi, stjórn Rangárhallar og Rangárbakka, þar sem þessir aðilar höfðu gert ráð fyrir að sátt væri komin á um tvo landsmótsstaði; annan á Vindheimamelum og hinn á Hellu.

Uppbyggingin á Hellu hefur miðast við að svæðið fái annað hvert landsmót og því setur þessi ákvörðun LH stórt strik í reikninginn.

Það sem er bagalegt í þessu ferli er hversu lengi ákvörðun um staðarval mótsins hefur dregist, en samkvæmt reglum LH átti hún að liggja fyrir í júní síðastliðnum, enda finnst framkvæmdaraðilum tvö ár til stefnu algjör lágmarkstími til undirbúnings.

Ljóst má þykja að Fákur mun með glöðu geði halda landsmótið ef viðræður æxlast þannig. Það verður augljóslega annars konar mót sem haldið er í þéttbýli, eins og sannaðist í Reykjavík árið 2000. Nú eru aðrir tímar, kostir og gallar fylgja öllum mótsvæðum og skiptar skoðanir eru á meðal hestamanna um málið. Nú er aðeins eitt að gera - bíða og sjá hver niðurstaða viðræðna LH við Fák verður og halda þá áfram umræðunni.