miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvar starfa dúxarnir á Hólaskóla?

28. júní 2009 kl. 09:02

Þrjár stúlkur dúxuðu í Skeifukeppninni á fyrsta ári á Hólaskóla í vetur.

Skeifuhafi er Ragnhildur Haraldsdóttir úr Mosfellsbæ og hún hlaut einnig reiðmennskuverðlaun FT. Hún starfar í sumar hjá hinni þekktu tamningakonu Lenu Zielinski á Efra-Hvoli í Hvolhreppi. Ragnhildur er harðákveðin í að taka annað árið á Hólaskóla næsta vetur.

Silvía Sigurbjörnsdóttir varð í öðru sæti. Hún starfar við tamningar hjá föður sínum á Oddhóli á Rangárvöllum í sumar, eins og hún hefur gert mörg undanfarin ár. Silvía fékk einnig Eiðfaxabikarinn fyrir bestu umhirðu á hrossi og viðurkenningar fyrir hæstu einkunn í kennslufræði á leiðbeiningastigi.

Ingunn Birna Ingólfsdóttir varð þriðja. Hún starfar hjá Ísleifi Jónassyni í Kálfholti, móðurbróður sínum, en þar hefur hún starfað við tamningar meira og minna síðastliðin sjö ár.

Sigvaldi Lárus Guðmundsson hlaut tamningabikar FT fyrir hæstu einkunn á öðru ári. Hann starfar í sumar á Hamraendum í Dölum ásamt bróður sínum Ólafi Andra, sem var einnig á Hólaskóla síðastliðinn vetur.

Sören Agerskov Madsen fékk Morgunblaðshnakkinn fyrir hæstu einkunn á þriðja ári, Ástundarhestinn fyrir reiðmennsku og LH-styttuna fyrir hæstu einkunn í reiðkennslu. Sören hefur opnað eigin tamningastöð í Danmörku.