sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvað stendur á bak við gæðingana?

25. ágúst 2013 kl. 17:38

Hnokki og Jói Skúla

-hugleiðingar eftir Heimsleikana í Berlín-

Við fengum sendar frá Kára Arnórssyni hugleiðingar eftir heimsleikana í Berlín. En hægt er að lesa þær hér fyrir neðan.

"Á heimsmeistaramótinu sem haldið var í Berlín kom fram margt af snjöllum fallegum gæðingum. Gaman er að líta ögn til þess hvað á bak við þá stendur. Þeir hestar sem hér verða skoðaðir eru þeir sem sigruðu í tölti í fullorðinsflokki og í ungmenna flokki.

Þessir hestar Hnokki frá Fellskoti, sigurvegari í fullorðinsflokki  og Hárekur frá Vindási sigurvegari í ungmennaflokki, eru nefninlega talsvert skyldir. Hnokki er undan Hrynjanda frá Hrepphólum Stígandasonar frá Sauðárkróki og Hárekur er undan Stíganda. Stígandi var úr ræktun þeirra Sauðárkróksfeðga undan Þætti frá Kirkjubæ og Ösp frá Sauðárkróki. Hárekur rekur einnig móðurætt sína til Sauðárkróks, en hann er undan Stjörnu frá Vindási Hervarsdóttur frá Sauðárkróki.

Stígandi var umdeildur stóðhestur en hefur greinilega erft frá sér mikla hæfileika. Hann hefur gefið marga góða töltarar og nægir þar að minna á úrvals töltarann Tígul frá Gígjarhóli. Stígandi hlaut heiðursverðlaun á landsmóti 1998.

Þá er rétt að geta þess að Þáttur frá Kirkjubæ er lika í móðurætt Hnokka, því Hnota frá Fellskoti móðir hans var undan Moldu Þáttardóttur.

Faðir Hnotu var Ófeigur frá Flugumýri og þaðan kemur væntanlega liturinn á Hnokka.Þá er Hrafn frá Holtsmúla,  einnig í ætt Hnokka, en Von frá Hrepphólum móðir Hrynjanda var Hrafnsdóttir. Lengra aftur grillir svo í Sörla frá Sauðárkróki. Þannig standa fjórir heiðursverðlaunahestar Stígandi, Þáttur, Hrafn og Sörli  á bak við Hnokka. Allir af skagfirsku bergi brotnir.

Hinn töltarinn Hárekur frá Vindási á ekki að baki sér með jafn marga heiðursverðlaunahesta þó að þeir skarti þar, Hervar frá Sauðárkróki og Hrafn frá Holtsmúla auk Sörla frá Sauðárkróki. 

Langafinn á fyrstu Evrópuleikunum.

Geta má þess til gamans að Fjöður frá Hnjúki í Vatnsdal móðir Stjörnu frá Vindási var undan hesti sem keppti á fyrstu Evrópuleikunum (sem nú kallast Heimsleikar). Sá hestur var Blossi, rauðblesóttur frá Aðalbóli í Miðfirði. Þann hest keypti Sigurður Magnússon bóndi á Hnjúki af Benedikt á Aðalbóli tveggja vetra gamlan og notaði í sínu stóði. Á Aðalbóli var gamalræktað gott reiðhestakyn með ríkjandi rauðlesóttum lit. Angi af því kyni eru hrossin frá Skáney. En Skáneyjarblóð er einnig í Stíganda, en Ösp móðir hans var undan Kápu Síðudóttur og Blesa frá Skáney.

Á landsmótinu á Þingvöllum 1970 var haldið úrtökumót fyrir þátttöku í Evrópumótinu.Sigurður vann fimmganginn á Blossa og Skúli í Svignaskarði fjórganginn á Stjarna. Þessir hestar fóru svo utan til keppni. Um þetta má fræðast í bókum Gunnars Bjarnasonar Ættbók og saga íslenska hestsins.

Það er alltaf þess virði að forvitnast um hverrar ættar þau hross eru sem skara fram úr og hafa jafnan í huga þá ræktun sem að baki stendur, skyggnast eftir því hvaða eiginleikar eru sterkastir hjá hverri ættlínu. Ekki á það síst við þegar  menn eru að velja hryssum sínum stóðhest."

Kári Arnórsson