sunnudagur, 18. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hvað er rétt afturfótastaða?

31. júlí 2019 kl. 10:15

Myndin sýnir afturstætt hross sem er einnig með harða afturfótastöðu

Niðurstöður rannsóknar sem gerð var við Háskólann á Hólum

 

Við Háskólann á Hólum er stunduð viðamikil rannsóknavinna á sviði hrossaræktar, tamninga, reiðkennslu og reiðmennsku ár hvert. Nemendur í BS námi skólans í reiðmennsku og reiðkennslu velja sér rannsóknarefni á áðurnefndum sviðum sem lokaverkefni á þriðja námsári. Eiðfaxi mun leggja sig fram um að fjalla um niðurstöður þessara verkefna, sem eru bæði áhugaverð og fræðandi fyrir hestamenn. Hér í þessari grein er fjallað um afturfótastöðu íslenskra hrossa og var það Árný Oddbjörg Oddsdóttir sem vann að verkefninu undir leiðsögn Víkings Gunnarssonar lektors við Háskólann á Hólum.

Eftirsóttur eiginleiki

Mikill breytileiki er milli hestakynja hvaða eiginleikar eru eftirsóttir í sköpulagi hrossa og er það misjafnt eftir tilgangi og því hvaða hlutverki hestinum er ætlað. Eigi síður skiptir máli að hesturinn sé endingargóður og heilbrigður enda er það eitt af ræktunarmarkmiðum íslenska hestsins. Fjölbreytni gangtegunda og gott geðslag okkar hestakyns býður upp á mörg hlutverk og því reynir verulega á að samræma gæði og endingu í einn og sama hestinn. Sköpulag og fótstaða afturfóta hefur talsvert verið rannsökuð hjá erlendum hestakynjum m.a skoðuð ákjósanleg lengd beina og stærðir horna við liðamót (vinklar afturfóta) fyrir mismunandi hlutverk eins og fimiæfingar, hindrunarstökk eða kappreiðar.

Hvað vitum við um afturfótastöðu?

Þorvaldur Kristjánsson rannsakaði í doktorsverkefni sínu tengsl sköpulags við hæfileikadóm íslenskra hesta og kom þar m.a fram að hross með breiðari mjaðmagrind fengu hærri einkunn fyrir hægt tölt og ákjósanleg lengd og lögun lendar var mismunandi eftir því hvort hrossin sýndu afburða tölt, brokk eða skeið. Þar höfðu úrvalshross á tölti og brokki styttri lend á meðan úrvalshross á skeiði voru afturstæðari og höfðu lengri og brattari lend. Ákjósanleg stærð á hornum sem myndast við liði afturfóta er mismunandi, eftir hlutverki hestsins og gerð fótarins að öðru leiti. Í erlendum hestakynjum hefur verið sýnt fram á að of mikil kreppa í hækillið setji mikið álag á innri lærvöðva, kvíslbönd og kvíslbandsfestingar og auki þar með líkur á helti. Einnig hafa rannsóknir sýnt að of uppréttir fætur hafi minni getu til að taka við höggi og framkalla orku sem auki einnig líkur á ýmiskonar álagssjúkdómum.

Afturfótastaða í kynbótadómi

Í kynbótadómi íslenskra hrossa er horft í bæði fótstöðu og gerð afturfóta. Æsilegt er að fætur séu vel vöðvaðir, hæfileg horn á liðamótum, hækill sé staðsettur í línu við setbeins enda og tá afturfótar í línu við mjaðmaliðinn. Ákjósanlegt er að bein afturfóta séu löng og liðir sverir og sterkir. Í sköpulagsdómi geta kynbótadómarar merkt við eiginleikann hörð afturfótastaða sem telst til frádráttar í einkunna gjöf fyrir fótagerð. Engar mælingar eða skýrar reglur eru til sem gefa til kynna hvenær skal haka við athugasemdina hörð afturfótstaða, og hvenær ekki. Ef til vill mætti því draga þá ályktun að þau hross sem hljóta athugasemdina afturfótastaða séu því frekar afgerandi tilfelli. Annar galli í afturfótastöðu eru afturstæð hross en það á við í flestum tilvikum þegar sköflungurinn er of langur og staðsetur þar með hækillið fyrir aftan setbein. Mörg afturstæð hross eru einnig með harða afturfótastöðu en það er þó ekki algilt. Ekki er hægt að útiloka að einhver afturstæð hross séu í þessum hópi hrossa sem skilgreind eru að ósekju með harða afturfótstöðu.

Fylgni afturfótastöðu við einkunn á hægu tölti

Í BS verkefni Árnýjar komu fram marktæk áhrif af harðri afturfótastöðu á einkunn fyrir hægt tölt.

Hross með harða afturfótastöðu fengu að meðaltali 7,80 fyrir hægt tölt en önnur hross, að meðaltali 7,98 (tímabil 2008-2018). Ályktun rannsakanda er því sú að hross með harða afturfótastöðu eigi erfiðara með að framkvæma það sem um er beðið á hægu tölti, þ.e.a.s  að kreppa lend, bera þyngd og færa afturfætur nær þyngdarmiðju. Þótt afturfótstaða hafi áhrif á einkunn fyrir hægt tölt hafa margir aðrir þættir áhrif eins og breidd mjaðmagrindarinnar, lengd á hálsi og sýnt hefur verið fram á að framhalli í baki hafi neikvæð áhrif á frammistöðu í kynbótadómi. Ef til vill væri verðugt að skoða hvort hross með mjög upprétta fætur væru hlutfallslega hærri á lend en önnur og ættu þá í meiri hættu á að hafa framhalla í baki. Þá þarf einnig að hafa í huga við uppbyggingu dómstiga kynbótahrossa að afturfótstaðan kann að hafa ólík áhrif á einstakar gangtegundir. Athyglisvert er að í doktorsverkefni Þorvaldar Kristjánssonar kom fram að afburðarhross á skeiði höfðu stærra horn við mjaðmalið og hækillið og styttri kjúkur en önnur. Í þessari rannsókn fengu hins vegar hross með harða afturfótastöðu lægri einkunn fyrir skeið en þau sem ekki fengu þá athugasemd.

Ályktun

Hörð afturfótastaða hefur neikvæð áhrif á gæði og einkunn fyrir hægt tölt í kynbótadómi íslenskra hrossa. Mikilvægt er að rannsaka frekar afturfótastöðu íslenska hestsins, fylgni hennar við aðra eftirsótta eiginleika og þróa hlutlægar aðferðir til þess að meta hana.