föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Hundrað ára ræktunarsaga“ í Stóðhestablaði Eiðfaxa

31. mars 2011 kl. 14:01

„Hundrað ára ræktunarsaga“ í Stóðhestablaði Eiðfaxa

Kristinn Hugason fyrrverandi hrossaræktarráðunautur fer mikinn í viðtali við Stóðhestablað Eiðfaxa...

Í viðtalinu fjallar hann bæði um sína ræktun og föður síns í Ytra Dalsgerði og um hrossarækt almennt og dómstörf.
Um stærð hrossa segir Kristinn meðal annars:
„ Samt er það þannig að íslenski hrossastofninn hefur sennilega einhverja eðlisstærð og það er ekki mitt markmið að stækka hrossin út fyrir þau mörk, en samt er það þannig að það sem menn töldu stórt í eina tíð þykir ekki stórt hross í dag. Það er einnig mikilvægt þegar hrossin stækka að hlutföllin haldist rétt og ekki sé verið að rækta of baklöng hross heldur hross með langa skásetta bóga og öfluga lend. Hættulegt er að rækta burðarlaust bak og hef ég breytt afstöðu minni gagnvart mjúku baki sem við töluðum fyrir á minni ráðunautstíð og tel ég nú nauðsynlegt að hrossin verði að búa yfir burðugri yfirlínu í baki. Rannsóknir hafa líka sýnt að þetta er rétt stefna og í samræmi við nútíma reiðmennsku.“
Um erfðaframför segir Kristinn til dæmis þetta:
„Með kynbótafræðinni er hægt að reikna framförina út. Við leystum úr læðingi erfðaframför með breyttri dómaframkvæmd og aukinni teygni um og upp úr 1990. Þetta var kraftur sem bjó í stofninum með miklum erfðabreytileika og á tíunda áratugnum náðum við mjög mikilli erfðaframför, en þetta helst allt í hendur og fagmennskan er ekkert lík því sem áður var, stöðug erfðaframför er staðreynd og þeir sem ekki bæta sig dragast aftur úr.“
Þegar Kristinn er spurður um lokaorð bætir hann við að hrossarækt sé sennilega eitt það erfiðasta sem menn taka sér fyrir hendur og þá er það sem skilur á milli í þessari grein fyrst og fremst úthald og þolinmæði, því getur þetta verið erfitt fyrir bráðhuga menn þegar á móti blæs eða hægt sækist. Menn verða að þola marga hversdagslega erfiðisdaga eigi menn að endast í hrossarækt. Þetta er það sem þarf til þess að uppskera af og til helgidaga.

Greinin er í heild sinni í Stóðhestablaði Eiðfaxa sem er að koma út á morgun föstudaginn 1. apríl.