miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hulda Gústafs: Tími Smalans liðinn-

14. janúar 2010 kl. 12:37

Hulda Gústafs: Tími Smalans liðinn-

Hulda Gústafsdóttir er einn þeirra knapa sem taka þátt í Meistaradeild VÍS í vetur. Hún er liðsstjóri síns liðs, Hestvits/Árbakka, en félagar hennar í liðinu eru eiginmaðurinn, Hinrik Bragason og hinn efnilegi reiðmaður Teitur Árnason. Eiðfaxi.is sló á þráðinn til Huldu í morgun og spurði hana út í undirbúning og væntingar þeirra til deildarinnar í vetur.

MD VÍS nálgast, hvernig hefur undirbúningur gengið?

„Já, það er náttúrulega verið að þjálfa á fullu. Hér er mikið af spennandi hestum í þjálfun en við erum svo sem ekki alveg búin að velja hesta í allar greinarnar í Meistaradeildinni. Við Hinrik erum auðvitað bæði í deildinni og þurfum að finna út hvernig við skiptum hrossunum á milli okkar.“

Hvert er þitt persónulega markmið í deildinni í vetur?

„Það er þetta klassíska, gera betur en áður. Ég endaði í 10.sæti í fyrra og stefnan er sett ofar núna.“

En fyrir liðið þitt, Árbakka/Hestvit?

„Liðið stefnir líka að því að bæta sig og við höfum öll trú á að það geti gerst. Við enduðum í 3.sæti í fyrra og stefnum ofar í ár. Teitur er nýr liðsmaður hjá okkur og hann er náttúrulega bráðflinkur og orðinn reyndur reiðmaður.“

Nú er keppni í Smala fyrsta mótið. Hvernig leggst það í þig?

„Mér finnst tími þessarar greinar vera liðinn. Það var ágætt að nýta deildina til að koma fram með og kynna nýja grein og í dag er verið að keppa í henni um allt. En mér finnst hún ekki eiga erindi í Meistaradeildina.“

Af hverju heldurðu að Smalinn hafi orðið svona vinsæl keppnisgrein? „Tvímælalaust vegna þess að það er tími sem gildir, hver sem er á erindi í þessa grein, unglingar, áhugamenn og útreiðarfólk. Það er hraði og spenna í henni, sem reyndar verður oft að of miklum tætingi að mínu mati. Hestarnir sem henta í þetta eru liprir, snöggir, ekki of stórir og stórstígir. Þetta eru oft hestar sem passa ekki endilega í íþróttagreinarnar.“

Hvaða hesta verður þú með í deildinni í vetur?

„Það sem er öruggt núna, svona alveg í byrjun vetrar, er að Kjuði frá Kirkjuferjuhjáleigu mætir í fjórganginn. Síðan er ég með Sveig frá Varmadal, hann er líklegur í eitthvað, tölt til dæmis. Smalinn er aftur á móti óskrifað blað ennþá. Saga frá Lynghaga er inni og mætir í einhverjar skeiðgreinar að öllum líkindum. Fimmgangurinn er frekar óskrifað blað en við erum með hesta eins og Héðinn frá Feti, Straum frá Breiðholti, Sám frá Litlu-Brekku og Glym frá Flekkudal , sem eru sterkir fimmgangarar. Hver vill og verður þegar þar að kemur, er allt opið. Í fyrr var ég með Kjuða í gæðingafiminni, kannski mæti ég með hann aftur. T2 er mjög óskrifað blað ennþá, Völsungur frá Reykjavík fékk það verkefni hjá mér í fyrra en hann er nú farinn úr landi. Ég þarf að kíkja vel yfir hesthúsið og finna kandídat í það.“

Eiðfaxi.is óskar Huldu góðs gengis í verkefnunum fjölmörgu sem framundan eru.