mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hugur í Árbakkafjölskyldunni-

20. apríl 2010 kl. 12:01

Hugur í Árbakkafjölskyldunni-

„Við stefnum í heildina með 15 til 20 hross í úrtöku fyrir Landsmót. Þetta eru allt verulega frambærileg hross, en það skýrist með vorinu hversu mörg eru tilbúin í keppni eða sýningar,“ segir Hinrik Bragason, hrossaræktandi og hestamaður með meiru, á Árbakka í Rangárþingi ytra.

Nokkur þekkt nöfn eru meðal gæðinga í hesthúsinu hjá þeim hjónum Hinna Braga og Huldu Gústafs á Árbakka, nægir að nefna Aron frá Strandarhöfði, Ófeig frá Þorláksstöðum, Náttar frá Þorláksstöðum, Kjuða frá Kirkjuferjuhjáleigu, Sveig frá Varmadal og nýju stjörnuna Héðinn frá Feti.

„Væntanlega fara um tíu hross frá okkur í kynbótadóm, af þeim er Héðinn hvað þekktastur. Í hópnum er nokkuð af ungum hryssum, bæði sem eru hér í þjálfun og einnig úr okkar ræktun, þar á meðal ein efnileg undan Hnokka frá Fellskoti fædd í Fellskoti. Við vonumst til að geta sýnt Aron til heiðursverðlauna með afkvæmum, auk þess sem honum verður hugsanlega teflt fram í einstaklingskeppni. Ófeig stefnum við með í A-flokkinn ef allt gengur upp. Klárinn hefur verið í sundi og þjálfun á Hólaborg, en hann er að ná sér eftir meiðsli. Við sjáum hvað setur. Straumur frá Breiðholti, Sámur frá Litlu-Brekku, Smári frá Kollaleiru og Glymur frá Flekkudal eru einnig kandídatar í A-flokkinn og þá eru þeir Tígull frá Gýgjarhóli, Náttar frá Þorláksstöðum, Sveigur frá Varmadal og Kjuði frá Kirkjuferjuhjáleigu sterkir B-flokks hestar.“ Einhverjir af ofangreindum hestum munu einnig taka þátt í að ná sæti í töltkeppni Landsmótsins, en þar hafa undanfarin ár einungis 30 bestu töltarar landsins att kappi.

Síðustu tvö Landsmót hefur öll fjölskyldan á Árbakka keppt og stefnir hún nú að því að láta til sín taka þriðja mótið í röð. Þannig láta ungmennin á bænum, heimsætan Edda Hrund og tamningamaðurinn efnilegi Jón Bjarni Smárason, ekki sitt eftir liggja, auk þess sem Gústaf Ásgeir, stefnir á að vera með í toppbaráttunni í flokki unglinga. „Það er hugur í okkur öllum og tilhlökkun.Við teljum okkur vera með nokkur verulega sterk hross, en allt veltur þetta á því hvort þau eru tilbúin á réttum tíma og standi sig í úrtöku. Ef vel gengur þá stefnum við auðvitað að því að ná árangri á Landsmóti. Það er lokatakmarkið og því þjálfum við hér dagana langa, allir sem einn,“ segir Hinrik léttur að vanda, lýkur spjallinu og drífur sig af stað, enda verkefnin ærin.

 

/landsmot.is