fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hugum að ormasmiti

odinn@eidfaxi.is
7. október 2014 kl. 09:30

Nauðsynlegt er að gefa ormalyf þegar skipt er um hólf því að öðrum kosti verður smitið fljótt að magnast upp.

Mikilvægast er að halda smiti á beitilandinu í lágmarki og forðast þannig að hross verði fyrir stórfelldum ormasýkingum. Ormalyf ber að notka kerfisbundið í þessum tilgangi og samhliða beitarskiptum. Það er til lítils að meðhöndla hross með ormalyfjum ef þau fara jafn harðan út á smitað beitiland.

Vor- og sumarbeit / haust- og vetrarbeit
Nauðsynlegt er að skipta beitilandinu upp milli vor og sumarbeitar annars vegar og haust og vetrarbeitar hins vegar. Með því að friða landið fyrir hrossabeit hálft árið eyðist ormasmitið á beitilandinu að mestu. Land sem hefur verið friðað fyrir hrossabeit í heilt ár er talið nánast laust við ormasmit og ætti að vera hægt að nýta það til hrossabeitar árið þar á eftir, frá hausti til hausts, án þess að ormasmitið verði mikið fyrr en í lokin. Þar sem ormasmit berst ekki á milli dýrategunda er hægt er að nýta landið til annarar búfjárbeitar annað hvert ár. 

Ormalyf þegar skipt er um hólf
Nauðsynlegt er að gefa ormalyf þegar skipt er um hólf því að öðrum kosti verður smitið fljótt að magnast upp. Þetta á sérstaklega við um beitarskipti að vorinu. Þá ber að hafa í huga að það eru ekki síst fullorðnu hrossin sem smita landið þó svo minni hætta sé á að þau verði ormaveik. Þegar kemur fram á haustið nær nýtt smit ekki að magnast upp (fækkun eggja í taði og kaldara í veðri) en hross geta áfram smitast af lirfusmiti sem fyrir er á landinu frá undangengnu sumri. Ormalyfjagjöf að haustinu er nauðsynleg til að tryggja heilbrigði og hámarks fóðurnýtingu yfir veturinn. 
Hafi menn möguleika á að reka hross á afrétt frá miðju sumri og fram á haust heldur það ormasmiti í heimalöndum niðri. Landið er þá friðað á þeim tíma sem hættast er við að smitið magnist upp. Skilyrðislaust ætti að gefa öllum hrossum ormalyf áður en þau eru rekin á fjall. Gera verður ráð fyrir að folöld og tryppi séu þá þegar orðin sýkt og hætta er á að þau fái ormaveiki án þess að eigandinn verði þess var eða geti komið til hjálpar. Þá nýtist sumarið ekki eins vel til vaxtar og þroska og hætta er á að ormasmitið magnist upp á afréttinum því hrossin halda sig mikið í hópum og tiltekin svæði geta verið mikið bitin þó svo landrými sé mikið. 

Ormalyf fyrir folöld og tryppi
Ef folöld og tryppi ganga í þröngum högum eða er haldið við hús að vori og/eða sumri er þörf á tíðari ormalyfjagjöfum. Þannig ættu öll folöld og hryssur að fá ormalyf þegar þau koma úr stóðhestagirðingum. Til að hindra að mikið spóluormasmit magnist upp þurfa folöld og tryppi að vera á rúmgóðu beitilandi og gott er að skipta um hólf frá ári til árs.
Þar sem ormalyf er gefið aðeins tvisvar á ári er lítil hætta á að ónæmi myndist fyrir ormalyfinu. Venjulega er þó gefið sitthvort lyfið í þessi tvö skipti. Þar sem hrossum er haldið á þröngu landi og ormalyf gefið oftar, þarf að huga að ónæmi fyrir lyfjunum getur orðið vandamál og er ráðlegt að skipta um ormalyf á 2-3ja ára fresti í þeim tilgangi. Skipti menn of títt um ormalyf skapast hætta á fjölónæmi. Skynsamlegt er að nota öðru hvoru lyf sem heldur bandorminum í skefjum.