miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hugum að haustbeitinni

11. september 2016 kl. 14:01

Þegar komið er í veg fyrir hinn náttúrulega undirbúning hrossanna fyrir útigang verður að gera enn meiri kröfur um aðbúnað þeirra og beit að haustinu.

Haustið og síðari hluti sumars er hrossum mikilvægur til að aðlagast rýrnandi fóðurinnihalds gróðurs að hausti og vetri. Mikilvægt er að þau fái að safna fituforða fyrir veturinn, safna vetrarfeldi sem er vörn gegn náttúruöflunum en að vetri hægist á efnaskiptunum hrossa. Sérstaklega skal huga að hrossum sem hafa verið í mikilli brúkun fram eftir sumri. Stóðhestar og þá sér í lagi þeir sem hafa verið í mikilli notkunn er sérstaklega hætt við að falla í holdum að hausti. Þegar komið er í veg fyrir hinn náttúrulega undirbúning hrossanna fyrir útigang verður að gera enn meiri kröfur um aðbúnað þeirra og beit að haustinu.

Vætutíðin varasöm

Þó fallinn haustgróðurinn sé ágæt orkulind fyrir hross sem eru vel á sig komin virðist hann ekki nýtast grönnum hrossum eins vel. Líklegasta skýringin er að grönn hross þurfa meiri orku til að halda á sér hita og ná því ekki að hægja á efnaskiptunum og spara orku með sama  hætti og þau feitu. Þegar kólnar í veðri skilur enn á milli þessara hópa, ekki síst í vætutíð. Fitukirtlar húðarinnar auka þá framleiðslu sína til að feldurinn hrindi betur frá sér vatni. Stundum eykst starfsemi fitukirtlanna það hratt að þeir ná ekki að losa innihaldið út á yfirborðið og þá myndast hinir svokölluðu hnjúskar. Þetta gerist einkum ef grönn hross lenda í vosbúð og verður kalt. Út frá hnjúskunum geta komið sár og sýkingar í húðina. Þá eiga hrossin mjög erfitt með að halda á sér hita og leggja undantekningalítið af.

Muna að ormahreinsa

Nauðsynlegt er að hross í reiðhestaholdum sem eiga að ganga úti fram í desember eða lengur, séu á mjög góðu beitilandi. Ákjósanlegast er óbitið þurrlendi, valllendi eða tún. Mýrlendi hentar ekki vel til haustbeitar því gróður þar fellur fljótt og kalt er fyrir hross að standa á röku landi. Góð hrossaskjól eru mjög mikilvæg í hrakviðrum haustsins. Skjólin þurfa að standa á þurrum stað og verja hrossin fyrir veðri og vindi úr öllum áttum. Sjálfsagt er að ormahreinsa hross áður en þau er sett á haustbeit til að bæta fóðurnýtinguna og jafnframt þarf að fyrirbyggja að lús nái sér á strik. Hross þurfa að hafa aðgang að rennandi vatni allan ársins hring og saltsteinar ættu að vera til staðar í öllum hrossahólfum.

Reglulegt eftirlit með útigangi

Það þarf að fylgjast reglulega með hrossum á haustbeit og sjá til þess að þau séu í bata. Nauðsynlegt er að meta holdafar hrossanna með því að taka á síðu því vetrarhár og kviðlag geta villt sýn. Nái hrossin ekki að  safna fitu undir húð, og þá sérstaklega ef þau fá hnjúska, er ekki um annað að ræða en að hýsa þau og byrja að gefa. Þá þurfa menn einnig að vera vel á verði þegar beitin minnkar og færa hrossin í betra hólf eða hefja gjöf. Það er mjög varasamt að draga það að byrja að gefa útigangshrossum þar til þau eru farin að leggja af.

 

Hestamenn, hugum vel að haustbeitinni hún skiptir sköpum fyrir velferð og notagildi hrossanna.