föstudagur, 15. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hugmyndir að bættu fyrirkomulagi kynbótasýninga

20. febrúar 2012 kl. 09:33

Hugmyndir að bættu fyrirkomulagi kynbótasýninga

Mikið hefur verið rætt um tillögur fagráðs um breytt fyrirkomulag kynbótasýninga á LM2012. Í þeirri umræðu hafa margar hugmyndir komið fram sem bætt geta sýningarformið. Hér á eftir fara nokkrar af þeim hugmyndum sem fram hafa komið:

  • Fækka ferðum í dómi úr 10 í 9 og á yfirliti úr 6 í fimm. Sýningin endar þá á „hinum“ endanum þ.a.s riðið útaf á öðrum stað en þar sem hún hefst. Þá væri hægt að senda nýtt hross inn á brautina þegar fyrra hrossið væri að klára sína sýningu. Með þess fyrirkomulagi væri alltaf hross í brautinni og engar tafir þyrftu að vara á milli sýninga.
  • Tímamæling. Þá hefði hvert hross ákveðin tíma í braut til að sýna það besta sem það getur. Gefið væri til kynna með hljóðmerki að 1 mínúta væri eftir og þá gætu knapar farið að undirbúa sig í að ljúka sýningu. Þessi hljóðmerki þekkjast á Heimsmeistaramótum, en þetta fyrirkomulag kemur í veg fyrir að telja verði ferðir/hringi, gott er að gera áætlun um hve langan tíma þarf fyrir hvern flokk og gefur knöpum að setja upp sýningu sem hentar sýni hrossi innan þess tíma sem gefin er t.d. 8 mínútur á hvert hross.
  • Merkja fetkafla. Með þessu móti væri hægt að skikka knapa til að sýna fet á 70m kafla beint fyrir framan dómara og koma í veg fyrir óþarfa tafir með löngum fetsýningum.
  • Merkja brautarenda. Samkvæmt reglum eiga kynbótabrautir að vera 250-300m. Eftir það væri hægt að hafa 50m snúningssvæði. Þá væri heildarlengt brautar með snúningssvæði 400m. Hugmyndin er að merkja þar brautarenda og ef hross fara út fyrir þá 400m eru þau komin út úr braut og hafa þar með ógilt sýninguna. Þetta kemur í veg fyrir að knapar tefji sýningahald með reið langt út úr braut.
  • Upphitunarsvæði afmarkað. Hugmyndin gengur út á að hross verði að vera á afmörkuðu upphitunarsvæði í kallfæri við sýningarstjóra í síðasta lagi þegar knapinn á undan er hálfnaður með ferðafjölda sinn. Þetta kemur í veg fyrir óþarfa tafir milli hrossa.
  • Reglur um í hvað ferð á að sýna fet. Ef regla er sett sem segir að knapar sem sýna ætla fet á yfirliti verði að gera það í annarri ferð, kæmi hún í veg fyrir að knapa tefji yfirlit með að einn sýni fet í fyrstu ferð, næsti í annarri og sá síðasti í þeirri þriðju. Þetta ásamt afmörkuðum fetkafla getur stytt tíman sem fer í fetsýningar á yfirliti talsvert.
  • Sýningarstjórar í báðum brautarendum. Þá væri hægt að stýra sýningum líkt og þekkist á reiðhallasýningum og tryggja  þannig gott flæði og koma í veg fyrir óþarfa tafir.
  • Opna inn á hringvöll. Þá geta knapar nýtt sér hringvöllinn ásamt beinni braut að vild. Einn hringur á hringvelli kæmi í stað einnar ferðar fram og til baka á beinni braut. Þetta mundi gefa knöpum færi á að útfæra fleiri sýningar á skemmtilegan hátt og stytta reiðina og spara tíma.
 
Margt fleira hefur verið rætt eins og að setja fjöldatakmarkanir í hvern flokk, hætta sýningu 7 vetra og eldri kynbótahrossa á stórmótum, leggja niður 4. vetra flokkinn líkt og á HM, fækkun ferða í dómi og/eða á yfirliti, sérstakan Landsmótsdóm þar sem um væri að ræða opin dóm til hækkunar eða lækkunar byggðan á dómnum á vorsýningu. Einnig hafa margar hugmyndir komið fram um hvernig hægt er að gera sýningarnar áhorfendavænni eins og risaskjái, upplestur hækkana á yfirliti jafnóðum og gagnvirkri sýningarskrá á netinu þar sem áhorfendum geta fylgst með því sem er að gerast á ipad, iphone eða slíkum tækjum.
 
Hægt er að bæta sýningar talsvert og allir eru sammála um að þær gangi sem hraðast, séu skemmtilegar, hest- og áhorfendavænar, en fyrst og fremst faglega sterkar svo hægt sé að treysta þeim og byggja á þeim hrossaræktinni til framdráttar.