mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hugmynd að safni og félagsaðstöðu kynnt Fáksmönnum

20. september 2011 kl. 15:15

Hugmynd að safni og félagsaðstöðu kynnt Fáksmönnum

Stjórn Fáks birti á heimasíðu sinni í dag opið bréf til félagsmanna sinna, þar sem kynntar eru hugmyndir stjórnar félagsins þess efnis að reisa félagshúsnæði við Hvammsvöll í Víðidal sem hýsa myndi verðlaunagripi Sigurbjörns Bárðarsonar.

„Hugmyndin er að koma upp um 600 fm félagsaðstöðu sem getur þjónað sem safn undir verðlaunagripi Sigurbjörns Bárðarsonar, félagsaðaðstöðu, sýningaraðstöðu, aðstöðu fyrir áhorfendur á mótum, kaffiaðstöðu, verslun og fleira sem getur styrkt félagsstarf okkar.

Framkvæmd þessi yrði gerð með samstarfi og stuðningi Reykjavíkurborgar og Sigurbjörns. Eitt megin markmiðið er að koma upp aðstöðu sem væri sómi fyrir safn Sigurbjörns og til að halda á lofti þessu merka safni sem er sennilega eitt stærsta safn verðlaunagripa í einkaeigu í Evrópu og þó víðar væri leitað.

Ekki þarf að kynna Sigurbjörn fyrir Fáksfélögum og er hann löngu orðinn goðsögn og stolt okkar Fáksmanna. Við bindum miklar vonir við samstarf við Sigurbjörn og Reykjavíkurborg og um leið munum við bæta verulega aðstöðu félagsmanna á mótum, við móttökur, sýningar og jafnvel ráðstefnur og kennslu á vegum félagsins.

Það er líka stór þáttur í þessu að hvetja ungmenni og börn í Fáki til afreka að sjá svona stórt safn samankomið á einum stað og er ljóst að það mun vekja mikla athygli langt út fyrir landsteinana. Það er einnig ljóst að til þess að svona stórt verkefni verði að veruleika er þörf á aðkomu Reykjavíkurborgar og að félagsmenn styðji vel bakið á þessari hugmynd.

Hugmyndin er nú að fara af stað og eru bundnar vonir við að hægt verði að vinna betur að henni á næstu mánuðum. Rætt hefur verið um að staðsetja húsið í brekkunni fyrir ofan Hvammsvöllinn, á svipuðum stað og reiðvegurinn er nú, grafa það niður í brekkuna þannig að kerrustæði/bílastæði  við A tröð verði í svipaðri hæð og þak hússins.

Ekki er þó hér um endanlegar hugmyndir að ræða og mun stjórn félgasins kanna alla möguleika á samstarfi við arkitekta og Reykjavíkurborg. Einnig hefur verið rætt um að húsið verði með þjóðfélagslegum blæ og í grænum anda og falli vel inn í umhverfið og náttúru svæðisins.

Stjórn félagsins óskar hér með eftir hugmyndum og tillögum að framkvæmd þessari og eru félagsmenn hvattir til þess að senda þær til félagsins með tölvupósti á póstfangið fakur@fakur.is,“ segir í bréfinu.