föstudagur, 20. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hryssur hanga á egginu

25. júní 2015 kl. 11:00

Hryssur seinka oft köstun þegar tíðin er þeim ekki hagstæð. Rétt er að hafa í huga að fóðurþörf nýkastaðra hryssna er mikil. Nauðsynlegt er að tryggja þeim nægt fóður og vatn.

Erfitt tíðarfar kallar á aukna aðgát í hrossahaldi.

Fátt hefur verið rætt eins mikið undarfarnar vikur og tíðarfarið. Veturinn var vindasamur og kaldur en vorið kalt. Í 6. tbl. Eiðfaxa er fjallað þau áhrif sem tíðarfarið getur haft á hross. Hér er brot út greininni:

Í venjulegu árferði hafa stóðhesteigendur almennt getað sleppt stóðhestum sínum í girðingar að loknum vorsýningum kynbótahrossa um miðjan júní en nú er staðan sú að huga verður vel að ástandi úthaga og jafnframt að skoða ástand folaldshryssnanna og stóðhesta áður en sleppt er. Í 4.tölublaði Eiðfaxa er fjallað um hvað hafa ber í huga þegar kemur að stóðhestahaldi en þar segir meðal annars að gott sé að bjóða upp á hey með beitinni og að gott sé að hafa salt og önnur steinefni aðgengileg. Þetta á enn frekar við í árferði eins og það er þetta árið.

Í samtali við Guðmar Aubertsson dýralækni á Sandhólaferju segir hann meira vera um grönn hross þetta vorið en oftast áður. Eins virðist vera meira um vandamál vegna fastra hilda sem mögulega megi rekja til efnaskorts í heyjum og/eða úthaganum.

Almennt eru þeir aðilar sem sjá um stóðhesta sammála um að hryssur hafi verið lengi í gang og að þær hafi ekki bara frestað köstun líkt og þekkt er í slæmum vorum heldur virðast þær bíða lengur með egglos. Þetta kalla dýralæknar “að hanga á egginu” og þýðir í raun að hryssan er álægja lengur en annars væri.


Hægt er að gerast áskrifandi að Eiðfaxa í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is.