fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrossin frá Korpu

11. desember 2012 kl. 15:12

Ragnar Þór Hilmarsson, lengst til hægri, tekur við verðlaunum fyrir Konsert frá Korpu á LM2012. Á bikarnum heldur Hafliði Halldórsson, sem á hestinn ásamt Steinþóri Gunnarssyni. Knapi er John Sigurjónsson.

Ragnar Þór Hilmarsson, málarameistari, er maðurinn á bak við hrossin frá Korpu sem eru að gera garðinn frægan.

Ragnar Þór Hilmarsson, málarameistari, er einn þærra hrossaræktenda sem verðlaun fengu á aðalfundi Hrossaræktarfélags Ölfus sem haldinn var í nóvember. Hann er ræktandi stóðhestsins Konserts frá Korpu, sem stóð efstur í 6 vetra flokki stóðhesta á LM2012. Konsert er undan Sæ frá Bakkakoti og Hátíð frá Hellu, sem er undan Gáska frá Hofsstöðum og Nönu frá Hellu, Hranfsdóttur frá Holtsmúla.

Ragnar stundaði tamningar á yngri árum og var mikill skeiðáhugamaður. Hann varð meðal annars Skeiðmeistari ársins í þann tíð þegar svokölluð Skeiðmeistaramót voru haldin hér á landi í upphafi  níunda áratugarins. Toppurinn á reiðmennskuferli Ragnar var þó þegar hann reið Nönu frá Hellu í þriðja sætið í A flokki gæðinga á FM1985 í Reykjavík.

Nana var í eigu Lárusar Jónassonar á Hellu en Ragnar fékk undan henni nokkur folöld, þar á meðal hryssurnar sem hann ræktar út af í dag, þær Hátíð frá Hellu og Birtu frá Selfossi, sem er undan Ófeigi frá Flugumýri.

Korpa er ræktunarnafn Ragnars. Sjálfur er hann búsettur í Reykjavík en er með aðstöðu fyrir uppeldið fyrir austan fjall. Ragnar Þór verður í viðtali í fyrsta tölublaði Hestablaðsins á nýja árinu.