laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrossin eru í vetrarham ennþá

14. janúar 2010 kl. 13:15

Hrossin eru í vetrarham ennþá

Eiðfaxi.is hringdi í Svein Ólafsson dýralækni hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands á Selfossi og spurði hann frétta af hestaheilsu á Suðurlandi. „Það er nú allt frekar rólegt“ sagði Sveinn, „það helsta sem er í gangi núna eru einstaka hrossasóttartilfelli. Hrossin eru að koma á hús og breytingin er náttúrulega mikil, bæði umhverfis og fóðurbreyting.“ Er eitthvað sem Sveinn vill ráðleggja fólki í því sambandi? „Það þarf að fara rólega af stað í fóðrun hrossanna, sérstaklega fyrstu vikuna. Gefa þeim færi á að aðlagast bæði breyttum aðbúnaði sem og fóðri,“ sagði Sveinn. „Það er lítið um meiðsl ennþá, hrossin eru róleg á þessum árstíma, eiginlega í vetrarhamnum þannig að ekki er mikið um slagsmál í gerðum. Fólk þarf hins vegar að hafa gætur á þeim úti í gerðunum þegar meiri sæld fer að koma fram og eldið að skila sér í aukinni orku. Þá förum við oft að sjá sár eftir skeifnaskaflana. Það sama á við um álagsmeiðsl og ágrip. Þau koma með aukinni þjálfun þegar keppnistímabilið hefst. Menn þurfa bara að fara varlega um gleðinnar dyr“, sagði Sveinn að lokum.