laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrossaræktin á Þjóðólfshaga 1 í Stóðhestablaðinu

Jens Einarsson
13. apríl 2010 kl. 09:00

Íslands- og heimsmeistarar í hryssuhópnum

Hrossaræktarbúið Þjóðólfshagi 1 var eitt þeirra búa sem tilnefnt var til ræktunarverðlauna ársins í fyrra, 2009. Þar eru bændur Sigurður Sigurðarson og Sigríður Arndís Þórðardóttir. Fyrsti árgangur ræktunar þeirra reyndist frábær. Þau trippi eru þó ekki undan bestu og frægustu hryssum búsins.

Á búinu eru á þriðja tug fyrstu verðlauna hryssna. Þar á meðal eru tveir Íslandsmeistarar í tölti, Kringla frá Kringlumýri og Dáð frá Halldórsstöðum, og heimsmeistari í 100 metra skeiði, Drífa frá Hafsteinsstöðum. Framtíðin er því björt hjá þessu unga hrossaræktarbúi.

Í Stóðhestablaði Hesta&Hestamanna er fjallað um ræktunina á Þjóðólfshaga 1. Þar segja Siggi og Sigga að lykillinn að árangri þeirra í fyrra byggjist á valinu á stóðhestunum. Þau hafi tekið reynsluna fram yfir vonina.

„Við tókum þá ákvörðun á sínum tíma að leiða helst ekki nema undir reynda hesta. Stóðhesta sem áttu dæmd afkvæmi og voru komnir með öryggi í kynbótamati,“ segja þau Sigga og Siggi, sem bæði hafa brennandi áhuga á hrossaræktinni. „Huginn frá Haga og Hugi frá Hafsteinsstöðum voru hjá okkur þetta vor. Og síðan fórum við með hryssur undir Dyn frá Hvammi, Gust frá Hóli og Galsa frá Sauðárkróki. Við gerðum tvær undantekningar fyrsta árið og leiddum eina hryssu undir Kjarna okkar, og eina undir Illing frá Tóftum, sem þá voru ungir folar. Við vorum heppin með þennan fyrsta árgang. En það er ekkert sjálfgefið að það endurtaki sig. Það er ekki til nein örugg uppskrift að vali á stóðhestum.“

Lesið meira um hrossaræktina á Þjóðólfshaga 1 í Stóðhestablaði H&H sem kemur út 22. apríl.