sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrossaræktarbú ársins - leynilegar forsendur

Jens Einarsson
28. október 2010 kl. 15:05

Fagráð veitir engar upplýsingar

Hestar og hestamenn hafa óskað eftir því við Bændasamtök Íslands og fagráð í hrossarækt að fá upplýsingar um hvað liggur til grundvallar tilnefningum til ræktunarverðlauna ársins. Svo hægt sé að fjalla um forsendur tilnefninganna í aðdraganda verðlaunaveitingarinnar.

Í svari frá Guðlaugi Antonssyni hrossaræktarráðunauti segir að þær upplýsingar verði ekki birtar. Ræktunarverðlaunin hafi verið veitt frá 1993, eða sautján sinnum. Aldrei á því tímabili hafi forsendur valsins hvað varðar einstaka ræktendur verið birtar, nema þá hjá sigurvegurunum hverju sinni. Hér sé ekki um opinberar upplýsingar að ræða. Dómar séu opinberir og fari fram eftir lögum og reglum þar um. Reglur um val á rætkunarbúum eigi sér enga laga- eða reglugerðarstoð og teljist niðurstöður því engan veginn opinberar upplýsingar. Í svarinu segir að allar upplýsingar sem liggi til grundvallar vali á ræktunarbúum geti hver og einn unnið úr WorldFeng ef áhugi sé fyrir. „Um frekari birtingu á vegum fagráðs í hrossarækt verður ekki að ræða“, segir orðrétt í svarinu.

Í svarinu er tekið fram eftirfarandi: „Það sem liggur til grundvallar við val á tilnefndum ræktunarbúum er eftirfarandi: Fjöldi sýndra hrossa á árinu, meðaleinkunnir sýndra hrossa og meðalaldur sýndra hrossa þessir þrír liðir eru allir metnir jafngildir. Auk þess gilda heiðursverðlaun hryssu fyrir afkvæmi sem eitt einstaklingsdæmt 5 vetra hross með 8,00 í aðaleinkunn. Heiðursverðlaun stóðhests fyrir afkvæmi gilda sem fjögur 5 vetra einstaklingsdæmd hross með 8,00 í aðaleinkunn og 1. verðlaun stóðhests fyrir afkvæmi gilda sem tvö 5 vetra einstaklingsdæmd hross með 8,00 í aðaleinkunn.“

Ástæða er til að taka fram í þessu sambandi að ekki er alltaf augljóst fyrir leikmenn að finna út hvaða hross liggja til grundvallar hverju búi. Ekki eru öll hross skráð með ræktendur. Ekki eru öll hross frá tilteknu búi á nafni sama ræktanda og engar óyggjandi upplýsingar liggja fyrir hverjir standa að búinu. Ýmislegt getur því valdið því að forsendur fagráðs og þær sem virðast augljósar í WorldFeng fara ekki saman.

Hestar og hestamenn hafa einnig óskað eftir því við Landssamband hestamannafélaga að fá upplýsingar um afrekaskrá þeirra knapa sem tilnefndir eru til knapaverðlauna ársins. Formlegt svar hefur ekki borist en eftir því sem næst verður komist er umrædd samantekt ekki tilbúin.