sunnudagur, 18. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrossarækt samþykkt sem búgrein

TB/Bondi.is
2. mars 2010 kl. 10:39

Grænhóll hlýtur landbúnaðarverðlaunin 2010

Búnaðarþing samþykkti hrossarækt og hestamennsku sem alvöru búgrein með táknrænum hætti þegar hrossaræktarbúið Grænhóll/Auðsholtshjáleiga hlaut hin eftirsóttu landbúnaðarverðlaun, annað tveggja búa, við setningu þingsins.

Það eru þau Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir sem eru eigundur búsins. Þau hafa rekið það með myndarskap, ásamt fjölskyldu sinni, síðastliðin tíu til tuttugu ár. Fyrst á Auðsholtshjáleigu í Ölfusi, og síðan bættist Grænhóll í sömu sveit við fyrir um áratug. Þar fer nú aðal starfsemin fram. Auðsholtshjáleiga er framúrskarandi hrossabú og hefur fjórum sinnum hlotið ræktunarverðlaun ársins, sem er ein eftirsóttasta viðurkenningin í hestamennskunni.

Gunnar og Kristbjörg reka einnig umsvifamikið hrossaútflutningsfyrirtæki, sem er það langstærsta sinnar tegundar hér á landi. Fjölskyldan stundar hrossarækt og hestamennsku á breiðum grunni og má segja að enginn þáttur hestamennskunnar sé þar undanskilinn: Hrossarækt, keppni, markaðsmál, almennar útreiðar, hestaferðir og félagsmál.

Gunnar og Kristbjörg er gott dæmi um borgarbúa sem hafa flutt stóran hluta af starfsemi sinni út í sveitir landsins fyrir tilstuðlan hestins. Þau hafa aðsetur bæði á Grænhóli og í Reykjavík. Eiga stórt hesthús í Fáki í Víðidal, þar sem þau eiga sterkar rætur.

Í frétt á bondi.is segir: „Kristbjörg Eyvindsdóttir og Gunnar Arnarson á Grænhóli í Ölfusi hljóta landbúnaðarverðlaunin 2010 fyrir dugnað og snyrtimennsku, ræktun íslenska hestsins og markaðsstarf.“