miðvikudagur, 16. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrossaræktarráðunautur í Stóðhestablaði Eiðfaxa

30. mars 2011 kl. 13:35

Hrossaræktarráðunautur í Stóðhestablaði Eiðfaxa

Í Stóðhestablaði Eiðfaxa 2011 sem kemur út á föstudaginn kemur er meðal annars efnis pistill Guðlaugs Antonssonar ráðunautar. Í pistlinum rekur Guðlaugur þær raunir sem greinin hrossarækt hefur gengið í gegnum á síðustu misserum og fjallar meðal annars um viðbrögð alþjóðasamtakanna FEIF við frestun Landsmóts vegna veikinda í hrossum hér á síðasta ári. Í pistlinum segir Guðlaugur meðal annars:

„Vissulega kom það mér og fleirum verulega á óvart hvað sú ákvörðun féll í grýttan jarðveg hjá stjórn FEIF alþjóðasamtaka íslandshestafélaga og sumum aðildarfélögum þess á erlendri grund. Var að heyra að það væri einkum mögulegt tekjutap samtakanna af heimsmeistaramóti í Austurríki sem olli þessum hörðu viðbrögðum. Mín skoðun er sú að þau rök séu léttvæg móti öllu því sem er í húfi hér á Íslandi þar sem heil búgrein, stór hluti veltu tuga tamningamanna og hrossaræktarbúa er í húfi, margar fjölskyldur eiga allt undir að innkomu aukist og eitthvað fáist inn til að standa undir uppbyggingu undanfarinna ára“.

Síðar í pistli sínum segir hann:

„Engum sem stóð að þeirri ákvörðun að fresta landsmóti 2010 kom til hugar að við þessum viðbrögðum mætti búast hjá þeim sem við töldum til okkar tryggustu vina. Engum hefur heldur dottið í hug að það verði regla í framtíðinni að fresta þurfi landsmótum trekk í trekk enda aldrei gerst í 60 ára sögu landsmóta. Flestir íslenskir hestamenn eru sammála um að besta fyrirkomulagið í dag sé landsmót annað hvert ár og heimsmeistaramót árið á milli. Að sú staða geti hinsvegar ekki komið upp á næstu 60 árum að fresta þurfi landsmóti um ár eða að sú hugmynd hljóti brautargengi að annað form á stórmóta haldi sé æskilegt, verður tíminn að leiða í ljós. FEIF hefur farið fram á samning um að til slíkra frestana verði ekki gripið hvað sem á dynur. Mitt mat er að um slíkt sé tæplega hægt að semja fyrir komandi kynslóðir“.