miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hross og flugeldar

29. desember 2009 kl. 15:46

Hross og flugeldar

Því miður hefur það stundum brugðið við, að slys eða óhöpp hafa orðið í kringum áramótin vegna ofsahræðslu dýra við flugelda. Hræðsla og óróleiki eru eðlileg viðbrögð hjá dýrum, sem vita ekki að það er ekki um náttúruhamfarir að ræða þegar himininn lýsist upp af háværum flugeldum! Það er í eðli dýra að hræðast hávaða, reyk og eld og eigendum þeirra ber skylda til að passa upp á dýrin sín til þess að þau verði ekki sjálfum sér eða öðrum að voða.

Það eru nokkur atriði sem hesteigendur verða að hafa í huga þegar gamlárskvöld nálgast.

  • Hafa varann á við útreiðar í þéttbýli í kringum áramótin. Við þekkjum dæmi þess að slys hafi orðið þegar hross fælast við leiftur eða hávaða frá flugeldum. Þar að auki getur hrossið valdið meiri skaða þegar það rýkur út í buskann, sturlað af hræðslu.
  • Á gamlárskvöld er gott er að byrgja glugga hesthúsa ef hægt er, hafa ljósin kveikt og útvarpið á. Þetta minnkar áhrifin af hávaða og ljósglömpum frá flugeldum.
  • Það er öllu snúnara með hross á útigangi. Mikilvægt er að þeim sé gefið vel á gamlársdag, áður en lætin byrja og dimmt verður. Best er að hafa þau á svæðum sem þau þekkja vel til að reyna að fyrirbyggja að þau fari sér að voða.
  • Sumir bændur reka hrossin í aðhald, gerði eða annað, hafa traktor eða bíl í gangi með ljósin á og lýsa að hrossahópnum. Þetta hefur gefist vel, því hrossin heyra druninn í traktornum og ljósin dempa leiftrin frá flugeldunum. Við verðum að forða því að hrossin æði af stað, gegnum girðingar jafnvel, því það hafa jú orðið banaslys úti á vegum þegar hross fælast og lenda fyrir bílaumferð.
  • Nauðsynlegt er að vitja hrossanna eftir miðnættið, þegar mestu lætin eru afstaðin og ganga úr skugga um að allt sé í lagi.
  • Hvað önnur dýr varðar, ættu hundar alltaf að vera í bandi utandyra en hafa þá mest inni. Gott er að hafa dregið fyrir, ljósin kveikt og útvarp í gangi. Hundar vilja ekki endilega vera með eigenda sínum, heldur vera í friði í skjóli (t.d. undir rúmi). Leyfið þeim það, mikilvægast er að þeir komist ekki út.
  • Hundar hafa enga ánægju af eldi, ljósglæringum og hávaða. Þess vegna eru brennur enginn staður fyrir þá. Hafið hundinn heima, með einhverjum sem hann er öruggur hjá.

Athugið að ekki skal gefa dýrum róandi lyf nema í samráði við dýralækni og er gæludýraeigendum bent á að hafa samband við dýralækni og fá ráðleggingar vegna dýra sem þeir eiga von á að verði óróleg um áramótin.

Eiðfaxi vill einnig beina því til almennings að hafa dýrin í huga, taka tillit til þeirra og einskorða flugeldaskot við gamlárskvöld, þegar dýraeigendur hafa viðbúnað vegna dýra sinna.