mánudagur, 14. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hross í oss frumsýnd í kvöld

29. ágúst 2013 kl. 10:12

Örlagasögur sagðar út frá sjónarhóli hestsins.

Kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Hross í oss, verður frumsýnd í kvöld í Smárabíó, Háskólabíó, Borgarbíói Akureyri, Bíóhöllinni Akranesi, Sambíóum Selfossi, Ísafjarðarbíói og Króksbíó á Sauðárkróki.

 Hross í oss fléttar saman sögur af lífsbaráttunni, baráttu mannsins við náttúruna og tilraunum hans til að beisla dýrslega krafta náttúrunnar til sinnar eigin upphefðar, eða glötunar, eins og fram kemur í kynningartexta myndarinnar.

„Ég held að hestamenn skilji þetta sem fylgjast með atferli hests - hvernig hann hlustar á umhverfi sitt og aðra hesta; þá skynjar maður þetta „mennska“ eða sálina. Hestar eru eiginlega dýr sem þrífast á kærleika; einhver sagði að hestar væru meðvirkustu dýr í heimi,“ sagði Benedikt í viðtali við Eiðfaxa í fyrra.

Myndin segir örlagasögur af fólki í sveit, sagðar frá sjónarhorni hestsins. “Sólveig elskar Kolbein og Kolbeinn elskar Sólveigu en Kolbeinn elskar líka merina Gránu sem aftur á móti elskar folann Brún. Það er ekki víst að þessi saga endi vel. Vernharður elskar vodka og Jarpur elskar Vernharð. Útlendingurinn Gengis á hins vegar engan vodka en elskar hross eins og Jarp. Það er ekki heldur víst að þessi saga fari vel. Grímur kann að meta hesta og fornar hestaslóðir en Egill er áhugamaður um gaddavír og traktora. Þessi saga mun ekki enda vel. Jóhanna elskar Rauðku en Rauðka elskar frelsið. Við gamalt sumarhús liggur særður maður. Þessi saga gæti endað vel. Juan Camillo elskar náttúruna og leitar almættisins á hálendi Íslands. En hrossið er gamalt og þreytt og þarfnast hvíldar,” segir í kynningu um myndina.

Aðalleikarar myndarinnar eru auk þeirra Jarps, Skjóna og Yrju, þau Ingvar E. Sigurðsson, Steinn Ármann Magnússon, Charlotte Böving og Kristbjörn Kjeld ásamt fleirum. Hross í oss er fyrsta kvikmynd Benedikts í fullri lengd.