sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hross í oss á alþjóðlegri kvikmyndahátíð

13. ágúst 2013 kl. 14:32

Hross í Oss

Keppir í flokki verka nýrra leikstjóra um Kutxa-New Directors verðlaunin.

Á fréttavef Rúv kemur fram að kvikmynd Benedikts Erlingssonar Hross í oss hafi verið valin til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í San Sebastian  á Spáni.

„Myndin keppir í flokki verka nýrra leikstjóra um Kutxa-New Directors verðlaunin, sem hljóða upp á 50.000 evrur, eða tæpar 8 milljónir íslenskra króna. San Sebastián hátíðin fer fram í borginni Donostia-San Sebastían í Baskalandi á Spáni. 

Hvergi í heiminum eru veitt jafn há peningaverðlaun á kvikmyndahátíð. Í tilkynningu segir að Hross í oss sé grimm sveitarómantík um hið mennska í hrossinu og hrossið í manninum og í henni séu sagðar sögur af fólki í sveit frá sjónarhóli hestsins. Benedikt Erlingsson leikstýrir myndinni og skrifar jafnframt handrit hennar.

Framleiðandi er Friðrik Þór Friðriksson. Í aðalhlutverkum eru Ingvar E. Sigurðsson, Charlotte Bøving, Kristbjörg Kjeld, Steinn Ármann Magnússon og Helgi Björnsson.“

Hross í oss verður frumsýnd hér á landi þann 28. ágúst næstkomandi.  

Hér má sjá stiklu úr myndinni og svo má sjá part úr viðtali í 6 tbl Eiðfaxa 2102 við Benedikt Erlingsson hér fyrir neðan.

Mikil statusdýr

Benedikt leggur í myndinni meðal annars áherslu á hið mennska í hestinum og dýrið í manninum. „Ég held að hestamenn skilji þetta sem fylgjast með atferli hests - hvernig hann hlustar á umhverfi sitt og aðra hesta; þá skynjar maður þetta „mennska“ eða sálina.

Hestar eru eiginlega dýr sem þrífast á kærleika; einhver sagði að hestar væru meðvirkustu dýr í heimi. Þeir eru um leið mikil statusdýr og goggunarröðin er mjög skýr.

Það er eitt interessant, talandi um mennskuna í hestinum: Hestar hafa miklu meiri áhuga á öðrum hestum heldur en mönnum. Hestur sem er umkringdur fólki með kamerur, klapptré og bómur hefur miklu minni áhuga á því heldur en öðrum hesti sem labbar fram hjá. Maður getur stjórnað því hvert hestur horfir með því að leiða fram annan hest.

Ég held að manneskjan sé líka á ákveðinn hátt flóttadýr eins og hesturinn. Svo er dýrið í manninum eins og í hestinum - menn eru líka uppteknir af status og goggunarröð. Menn tala líka oft saman á mjög dýrslegan hátt.“