mánudagur, 24. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrói frá Flekkudal í Hjarðartún

16. júlí 2012 kl. 17:22

Hrói frá Flekkudal. Knapi er hin bráðflinka hestakona Birna Tryggvadóttir Torlacius.

Óskar Eyjólfsson í Hjarðartúni í Hvolhreppi hefur keypt stóðhestinn Hróa frá Flekkudal, sem er undan Íslandsmeistaranum Glymi frá Flekkudal. Hesturinn verður framtíðar keppnishestur í Hjarðartúni.

Óskar Eyjólfsson í Hjarðartúni í Hvolhreppi hefur keypt stóðhestinn Hróa frá Flekkudal (8,17), sem var sýndur í 4 vetra flokki á LM2012. Hugmyndin er að Hrói verði framtíðar keppnishestur í Hjarðartúni. Þjálfari hans og knapi verður Jón Páll Sveinsson, tamningamaður í Hjarðartúni.

„Þessi foli vakti strax athygli mína,“ segir Óskar. „Hann er vasklegur og einbeittur í framgöngu og gangtegundirnar taktvissar og hreinar. Mér finnst hann hafa ýmsa eiginleika til að verða góður keppnishestur í fimmgangsgreinum. Hann verður auðvitað graður áfram, en það verður ekki lögð sérstök áhersla á að ná toppi á honum sem fyrst. Þetta er langtíma verkefni fyrir Jón hestahvíslara,“ segir Óskar.

Hrói er undan Glymi frá Flekkudal, Pyttlusyni frá Flekkudal og Keilis frá Miðsitju. Glymur varð Íslandsmeistari í fimmgangi 2010 hjá Hinriki Bragasyni. Móðir Hróa er Glaðbeitt frá Flekkudal, Gáskadóttir frá Hofstöðum. Kaupverðið fæst ekki staðfest en stóðhestar í þessum gæðaflokki eru metnir á átta til tólf milljónir og jafnvel meira.