miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hróður

25. júní 2019 kl. 16:00

Hróður Sleipnisbikarshafi

Hróður frá Refsstöðum hefur um áratugaskeið verið farsæll kynbótahestur. Hér má finna viðamikla grein um þennan merkilega hest sem birtist í tölublaði Eiðfaxa árið 2017.

 

Upphafið

Hróður er fæddur að Refsstöðum í Borgarfirði árið 1995 ræktaður af Jennýju Franklínsdóttur en Mette Mannseth eignast hann árið 1996 þegar hann er vetur gamall, en hvernig kom það til að Mette eignaðist Hróður „Það kom þannig til að Gísli keypti 8 tryppi í pakka af Jenný á Refsstöðum þegar hún og Dagbjartur skildu. Upphaflega vildi Gísli eignast Rán móður Hróðurs sem hann hafði sýnt tveimur árum áður, þá lítið tamda, en hún var of dýr. Í þessum pakka voru geldingar og þrír ógeltir veturgamlir folar, allir undan Létti frá Stóra-Ási. Léttir var af algjöru uppáhaldskyni Gísla, undan Gáskadótturinni Hörpu frá Hofsstöðum og Kolfinni frá Kjarnholtum. Þegar tryppin fóru frá Refsstöðum þá lofaði Gísli því við Dagbjart að hann fengi að nota Hróður á hryssur þegar hann yrði tveggja vetra. Þegar tryppin voru svo kominn heim á hús í Stangarholti gaf Gísli mér Hróður og sagðist ætla að eiga bróður hans, sem Skálmar hét, og svo yrði keppni hvor reyndist betri. Það er gaman að segja frá því að Skálmar reyndist okkur einnig vel sem alsherjar brúkunarhestur í mörg ár. Hróður var frá fyrstu stundu mjög meðfærilegur í allri tamningu ef marka þá þessa lýsingu Mette frá því þegar Hróður var mýldur í fyrsta skipti „í fyrsta skipti sem settur var múll á Hróður var þegar hann var tveggja vetra, þegar fara átti með hann í hryssuhóp, hann var teymdur beint upp á kerru eins og ekkert væri sjálfsagðara. Maður hefði í raun getað teymt hann á lopa í stað taums. Það einkenni fylgdi honum í tamningunni og erfist vel til afkomenda hans þessi mikla næmni og léttleiki í allri svörun“.

Auðtamin gæðingur
Hróður kom fyrst til dóms árið 1999 þá fjögurra vetra gamall, sýndur af Gísla Gíslasyni í fordómi en af  Mette Mannseth á yfirliti, hlaut hann þá 7,75 fyrir sköpulag 7,76 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 7,75. Er hann í þeim dómi sýndur sem klárhestur og hlaut hann mjög jafnar einkunnir fyrir alla eiginleika. Mette lýsir Hróðri á þennan hátt í upphafi tamningar „Þegar ég byrjaði að temja hann var hann örlítið styggur í fyrstu en mjög meðfærilegur. Ég man vel fyrsta skiptið sem ég hringteymdi hann, maður hafði séð hann mest á stökki og bambi undir sjálfum sér, en þegar hann var kominn í taum hjólaði hann á hægu tölti rétt eins og maður sæti á baki. Það var ákaflega einfalt að gera hann reiðfæran, flugnæmur og skemmtilegur, alltaf taumléttur. Hann fór mest um á hægu stökki til að byrja með, tölti á milli en brokkaði lítið. Það hefði sjálfsagt verið hægt að fara í brokk- eða töltaðgerðir en hann fékk tíma til að styrkja sig á stökki, enda átti hann mjög auðvelt með að stökkva beitti sér rétt og lyfti sér upp í herðarnar á því. Þegar var komið að gangsetningu lág töltið alveg opið fyrir honum og frá fyrstu stundu var það alveg ótrúlegt. Ég fór svo á Hóla eftir áramót og Gísli hélt áfram með Hróður. Ég man að þegar ég kom heim í helgarfrí var ég alveg gapandi, Benedikt Þór Kristjánsson, sem þá var tamningamaður með Gísla og ég stóðum agndofa og horfðum á hestinn á afleggjaranum, þvílíkur gormur. Hann fór svo þegar líða tók á vetur til Gísla á Hofsstöðum sem teymdi hann á hesti í u.þ.b. tvo mánuði. Hann fór svo í dóm um vorið og fékk m.a. 8,5 fyrir tölt sem þótti afbragð á fjögurra vetra hesti á þeim tíma“.

Sló í gegn fimm vetra
Hróður kom aftur til dóms árið 2000, var hann þá sýndur á vorsýningu á Vindheimamelum af Mette og hækkaði töluvert fyrir byggingu frá árinu áður hlaut þá 7,94 fyrir sköpulag og skiptist sköpulagsdómur hans svo 8,5 fyrir höfuð og prúðleika, 8,0 fyrir alla aðra eiginleika fyrir utan einkunnina 7,5 fyrir réttleika og hófa. Fyrir hæfileika hlaut hann einkunnina 8,16 og má þar nefna 9,0 fyrir tölt 8,5 fyrir alla aðra eiginleika fyrir utan einkunnina 8,0 fyrir fet og 5,5 fyrir skeið. Það er svo á Landsmótinu í Víðidal sama ár sem hann fer í sinn hæsta dóm. Þar hlýtur hann 9,5 fyrir tölt, 9,0 fyrir vilja og geðslag og hægt tölt, 8,5 fyrir brokk, stökk og fegurð í reið 8,0 fyrir fet og 7,5 fyrir skeið. Endaði hann þriðji í flokki fimm vetra stóðhesta með aðaleinkunnina 8,39.

Ættir

Ef ættartré Hróðurs er skoðað má sjá að þar er að finna mörg farsæl kynbótahross, þó svo að foreldrar hans séu ekki þekkt fyrir margt annað en son sinn Hróður. Eins og áður hefur komið fram er Léttir frá Stóra-Ási faðir hans en Léttir var geltur einungis tveggja vetra gamall en kom til kynbótadóms árið 2002, hlaut hann þá í aðaleinkunn 8,05. Léttir var lengi vel keppnishestur hjá eiganda sínum Benedikt Líndal og vakti eftirtekt fyrir stórt skref og miklar hreyfingar. Léttir var undan Kolfinni frá Kjarnholtum og Hörpu frá Hofsstöðum. Kolfinn þarf vart að kynna enda hestamönnum vel kunnugur, sonur Hrafns frá Holtsmúla og heiðursverðlaunahryssunar Glókollu frá Kjarnholtum. Harpa frá Hofsstöðum móðir Léttis er undan Gáska frá Hofsstöðum og reyndist hún eiganda sínum Láru Kristínu Gísladóttur farsæl kynbótahryssa, því til stuðnings má nefna að undan henni er heiðursverðlauna hryssan Nóta frá Stóra-Ási en undan henni eru m.a. Trymbill og Flygill frá sama bæ.

Móðir Hróðurs er Rán (Rúbla) frá Refsstöðum ræktuð af Jennýju Franklínsdóttur. Rán er dóttir Náttfara frá Ytra-Dalsgerði og Litlu-Ljótar frá Refsstöðum sem var undan Borgfjörð frá Hvanneyri. Rán var sýnd fimm vetra gömul árið 1994, þá einungis tveggja mánaða tamin, af Gísla Gíslasyni og hlaut þá 7,53 fyrir sköpulag og 7,80 fyrir hæfileika í aðaleinkunn 7,66. Rán var flutt til Þýskalands árið 1996, þar sem hún hlaut háan kynbótadóm í Þýska kerfinu m.a. 9,0 fyrir tölt og skeið. Hún á eingöngu tvö skráð afkvæmi það eru Hróður og Rúna vom Eschental sem er ósýnd í kynbótadómi en á skráðan árangur í íþróttakeppni og skeiðgreinum. Rúna á eitt skráð afkvæmi Rökkvu vom Eschental sem hlotið hefur í kynbótadómi aðaleinkunnina 7,89 sýnd sem klárhryssa, hún er í eigu Kronshof GbR.

Afkvæmahesturinn Hróður

Fyrstu afkvæmi Hróðurs eru fædd árið 1998 og var hann því notaður til undaneldis strax tveggja vetra gamall. Fyrstu afkvæmi hans sem komu til dóms lofuðu strax góðu og vöktu athygli og von um það að Hróður myndi reynast kynbótahestur. Báru þau flest með sér kosti föður síns sem var góður fótaburður og mikið fas. Muna margir eftir þessum hrossum sem ýttu undir það að Hróður fékk mikla notkun og góðar hryssur má því til stuðnings nefna; Flautu frá Stóra-Ási, Happadís frá Stangarholti og Auði frá Hofi. Það var svo á Landsmótinu á Vindheimamelum árið 2006 sem Hróður hlýtur 1.verðlaun fyrir afkvæmi einungis 11 vetra gamall og þriðja sætið, á því móti vakti sérstaka athygli dóttir hans Leista frá Lynghóli sem sigraði í flokki fjögurra vetra hryssa. Leista þótti einstaklega eftirtektarvert tryppi sem geislaði af vilja, þjálni og góðum fótaburði. Mette þekkir vel til afkvæma Hróðurs og við skulum fá hana til að lýsa hvað einkennir þau „Fjaðurmagn, gleði og léttleiki þetta tel ég helstu kostina, það loftar undir þau. Það hafa mörg hver verið eins og hann var í byrjun, fara mikið um á stökki en búa yfir mögnuðum gangtegundum þegar þau hafa tekið út styrk og þroska. Þau eru einstaklega meðfærileg og þæg þó flest þerra séu næm og sumhver flugnæm. Þau eru fá harðviljug sem að í sumum tilfellum gerir það að verkum að skeiðið sem þau búa yfir fær ekki strax að njóta sín. Ég held að það liggi líka að einhverju leyti í þeim léttleika sem þau búa yfir að þau vilja ekki leggjast á tauminn og skeiða. Svo eru sum þeirra „of fínleg“ og finna ekki jafnvægið svo auðveldlega hjá stórum knöpum sér staklega þegar það fer saman með of stuttu baki. Hróður hefur reynst okkur mjög vel í ræktun og hafa öll hans afkvæmi sem við höfum eignast orðið góð hross sem eitthver hlutverk fá, og svo alveg upp í það að sigra íslandsmót bæði í fjórgangs- og fimmgangsgreinum.

Sleipnisbikarhafi

Það var svo á Landsmótinu á Hellu árið 2008 sem Hróður hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og hinn eftirsótta Sleipnisbikar, var það mál margra sem sáu þann fríða hóp afkvæma sem honum fylgdu að hann væri vel að titlinum kominn og þá segir í afkvæmaorðum hans:

„Hróður gefur hross um meðallag að stærð með frítt og skarpt höfuð. Hálsinn er hátt settur, langur og grannur með klipna kverk, herðar háar, bakið beint en breitt, lendin löng og öflug. Afkvæmin eru þurrbyggð, hlutfallarétt, sívöl og fótahá. Fætur eru þurrir og sinar öflugar en sinaskil lítil, réttleiki misjafn, hófar eru undir meðallagi. Prúðleiki um meðallag. Hróður gefur rúmt, lyftingarmikið og taktgott tölt og brokk. Vekurð er sjaldan mikil. Viljinn er ásækinn, þjáll og vakandi. Afkvæmin fara glæsilega. Hróður gefur fríð, framfalleg, háfætt og sívöl hross með afbragðs klárgangi og þjálum vilja. Hróður hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fyrsta sætið.“

Gefur af sér hross í öll hlutverk

Synir Hróðurs og dætur hafa sannað sig sem úrvals undaneldishross og hafa nokkur þeirra hlotið verðlaun því til handa, má þar nefna afkvæmaverðlaunahestinn Kvist frá Skagaströnd og heiðursverðlaunahryssuna Leistu frá Lynghóli. Einnig hefur Hróður skilað afkastamiklum keppnishrossum og má þar nefna syni hans, Hóf frá Varmalæk sem varð Svissneskur meistari í fjórgang í ár, Kolfaxa frá Blesastöðum sem varð Danskur meistari í fjórgang í ár og Kristal frá Búlandi sem varð norðurlandameistari í A-flokk 2016 og sigraði A-flokk á Sænska meistaramótinu í ár. Á síðastliðnu heimsmeistaramóti vakti mikla athygli Fönix frá Syðra-Holti sem varð heimsmeistari í slaktaumatölti og samanlögðum fjórgangsgreinum en hann er sonarsonur Hróðurs undan Hnokka frá Þúfum sem lengi hefur verið farsæll keppnishestur Mette Mannseth. Það er því ljóst að Hróður frá Refsstöðum hefur skilað miklu til hrossaræktuninnar og mun hróðug arfleið hans halda áfram að gleðja unnendur íslenskrar hrossaræktar um ókomna tíð. Eins og Mette Mannseth segir sjálf frá „Þetta hefur verið algjört ævintýri með Hróður og ég er endalaust þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa það“.