miðvikudagur, 24. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrímnir efstir í liðakeppninni

28. mars 2014 kl. 08:52

Lið Hrímnis í KS deildinni en þau hafa orðið stigahæsta lið kvöldsins í öll skiptin.

Samantekt frá KS deildinni

Á miðvikudagskvöldið fór fram töltkeppni KS-Deildarinnar í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki. Hér fyrir neðan birtist pistill Svölu Guðmundsdóttur um KS deildina:

"Frábærir töltarar voru skráðir til leiks og var mikil spenna fyrir kvöldinu. Vel var mætt á áhorfendapallana og mikil stemning myndaðist í höllinni.

Eftir góða forkeppni leiddi Bjarni Jónasson nokkuð öruglega eftir mjög góða og kraftmikla sýningu með 8,23. Þar á eftir var Mette Mannseth með 7,63. Auk þeirra fóru beint í A-úrslit þeir Ísólfur Líndal og Þórarinn Eymundsson. 

Efstir og jafnir inní B-úrslit komu þeir Hörður Óli og Arnar Bjarki með 6,93. Líney María, Elvar og Baldvin Ari komu svo þar á eftir.
Arnar Bjarki og Elvar börðust um sæti í A-úrslitum. Rún, hryssan Arnars er spennandi töltari - fasmikil og hágeng. 

Úrslitin fóru svo að það var Elvar sem stóð efstur með hest sinn Lárus frá Syðra-Skörðugili með 7,11 og fóru þeir því upp í A-úrslit. Lárus er jafn og góður töltari, nokkuð reyndur keppnishestur en Lárus er oftast undur stjórn Ásdísar, dóttur Elvars. 

A-úrslitin voru mikil veisla fyrir áhorfendur. Frábærar sýningar sáust og ljóst að knapar ætluðu sér stóra hluti.
Þórarinn og Taktur komust vel frá sínu og fóru jafnt í gegnum úrslitin. 

Mette og Trymbill áttu mjög gott kvöld, töltið í Trymbli er frábært með mikilli mýkt og vel riðinn af Mette.

Ísólfur átti góða sýningu á Kristófer og er þessi sterki fjórgangari að hasla sér völl sem töltari í fremstu röð.
Bjarni Jónasson og Þristdóttirin Randalín frá Efri-Rauðalæk voru óumdeilanlega sigurvegarar kvöldsins. Hryssan var frábær, mikill kraftur, fas og töltið úrval. Það verður gaman að sjá Randalín í keppni við sterkustu töltara landsins á komandi tímabili.
Með sigrinum fengu þau þátttökurétt á Allra sterkustu. 

Fyrir reiðmennsku kvöldsins hlaut Mette Mannseth FT-Fjöðrina. Hún var vel að þessari viðurkenningu komin. Hestur hennar Trymbill er eftirtektarverður alhliðagæðingur sem býr yfir mikilli mýkt og var honum vel stjórnað af knapa sínum Mette. Þau sýndu frábærar sýningar á hægu tölti, auk þess voru hraðabreytingar og yfirferð góð. 

Lið Hrímnis var stigahæsta lið kvöldsins, komin með 131,5 stig. 
Eins og oft áður komust allir knapar liðsins í úrslit, Þórarinn í A-úrslitum - Líney og Hörður í B-úrslitum. Hrímnisliðið hefur orðið stigahæsta liðið öll þrjú mótin og verður gaman að sjá hvað þau gera á síðasta keppniskvöldi deildarinnar. 
Einstaklingskeppnin getur ekki orðið mikið meira spennandi eins og staðan er núna. Ísólfur er efstur með 55 stig, annar er Bjarni með 54 stig, þriðji er Þórarinn með 53 stig og svo kemur Mette með 49 stig. 
Allir þessir knapar eiga mikinn möguleika á því að sigra deildina og verður því mikil spenna síðasta keppniskvöldið sem haldið verður miðvikudaginn 9.Apríl en þá veðrur keppt í slaktaumatölti og skeiði."