sunnudagur, 22. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hrekkjóttir hestar í uppáhaldi

21. desember 2011 kl. 13:47

Hrekkjóttir hestar í uppáhaldi

Í dag birtum við skemmtilegt viðtal Rósmundar Óttarssonar við höfðingjann Stefán Hrólfsson á Keldudal í Skagafirði sem birtist í Eiðfaxa árið 2009.

Einnig er hægt að benda á einlæga heimildarmynd frá 2005, Í Austurdal,  þar sem Stefáni og félögum hans í Gangnamannafélagi Austurdals er fylgt eftir við upprekstur hrossa, smölun og eftirleitir. Myndin fæst á DVD hér í vefversluninni.

Hrekkjóttir hestar í uppáhaldi

Það eru ekki margir svo lánsamir að hafa heilsu til að stunda útreiðar á níræðisaldri. Stefán Hrólfsson á Keldulandi í Skagafirði er þó einn þeirra. Hann hefur í gegnum tíðina ferðast víða á hestum og ólíklegt er að nokkur hafi ferðast jafnmikið og hann um Austurdal í Skagafirði, þar sem að hann ólst upp. Blaðamaður Eiðfaxa mælti sér mót við Stefán í von um að fræðast aðeins um þennan einstaka hestamann.

„Ég er fæddur í Ábæ í Austurdal og bjó þar til tveggja ára aldurs, en þá fluttum við í Stekkjarflatir þar sem ég bjó þar til ég keypti Kelduland árið 1954. Það hafði þá verið í eyði í 24 ár. Ég byggði þar allt upp og ræktaði túnin upp.“

Stefán hefur stundað útreiðar alla sína hunds- og kattartíð og frá 12 ára aldri hefur hann farið í göngur í Austurdalinn. „Ég fór dálítið á bak í sumar en nánast bara fyrir vestan, tvo sleppitúra og svo göngurnar, sem ég sleppi ekki á meðan ég hef heilsu til. Síðan fer ég alltaf ríðandi í Ábæ um verslunarmannahelgina, í Ábæjarmessu.“

Hverjir eru þeir eftirminnilegustu sem hafa ferðast með þér í gegnum tíðina? „Þegar ég var ungur var Jón Hallsson á Silfrastöðum oft með mér í göngum. Hann var mikill hestamaður og tamdi mikið. Ég fylgdi honum til grafar í fyrra. Helgi á Merkigili var merkilegur maður, kannski ekki svo mikið í hestum samt. Ég sé mikið eftir Hjálmari vini mínum í Tunguhálsi. Það var mikið samband milli okkar.“

Eru einhverjir hestar sem standa upp úr í minningunni? „Já já, það eru nokkrir. Ég hef alltaf haft gaman af hrekkjóttum hestum og hestum sem aðrir hafa gefist upp á. Ég átti einn gráan, mikið hrekkjóttan. Ég fór á honum mörg haust og var oft feginn þegar hann lenti í sköflunum. Þá hægði hann aðeins á sér. Ég lógaði honum þegar hann var 24ra vetra, því þá um vorið hrekkti hann mig ekki. Svo var Öðlingur, hann var góður gangnahestur, hafði mannsvit en var djöfull kargur. Ég átti líka jarpstjörnóttan góðan hest sem ég lét Hildigunni konuna mína hafa því maður selur ekki það sem maður á ekki.“

Talandi um sölu, hefur þú selt mikið af hrossum í gegnum tíðina? „Já, ég hef selt töluvert og þá ekki síst í öllum hestaferðunum. Það eru langmest útlendingar sem hafa keypt af mér í ferðunum.“

Þú ert sagður manna bestur í hestakaupum. Stundar þú þau enn í dag? „Viltu hestakaup,“ spyr Stefán á móti. „Ég á brúnan handa þér, helvíti góðan, átta vetra. Alveg drulluþægan.“

Það er ekki laust við að Stefán hafi slegið blaðamann út af laginu sem fer undan í flæmingi. „Ég hef ekki farið í hestakaup lengi. Ég held að mín síðustu hestakaup hafi verið við Ágúst Sigurðsson, fyrrverandi hrossaræktarráðunaut,“ segir Stefán.                                                                                                                                            

Stefán reyndi fyrir sér í tamningum og var einnig um tíma með tamningamenn hjá sér.

„Ég var eitthvað að reyna sjálfur við tamningar en það gekk nú misjafnlega. Mér fannst ekki verra ef það var aðeins leikur í þeim. Ég hafði svolítið gaman af því en þá var ég ungur, það er búið í dag. Ég var svo með nokkra tamningamenn, Frissa Kjartans, Baldur Garðars og svo erlendar konur líka.“

Stefán hefur verið umsvifamikill ræktandi og haldið undir marga góða stóðhesta í gegnum tíðina. „Ég fékk 24 folöld í sumar, en slátraði 14 þeirra. Ég tek þau svo undan og er með þau inni hjá mér í viku til 10 daga.“

Hvaða stóðhesta hefur þú verið að nota síðustu ár? „Síðustu fjögur ár hef ég notað stórvel ættaðan fola undan Aron og Keilu frá Sólheimum. Ég sá hann sem folald og sagði við Harald Bjarkason, eiganda hans, að þennan fola mætti hann ekki gelda. Hann lánaði mér svo folann þegar hann var þriggja vetra og bað mig síðan að fella hann í lok sumars því hann hafði slasast á fæti. Ég spurði Harald þá hvort ég mætti eiga folann og játti hann því. Þennan fola notaði ég þrjú næstu sumur en felldi hann svo í gröf nú í lok sumars. Hann hét Þrífótur frá Sólheimum og á ég nú nokkuð mörg undan honum.“

Stefán og Hildigunnur fluttu til Akureyrar haustið 2002 og stuttu síðar lést Hildigunnur. Stefán er öll sumur á Keldulandi í heyskap og að snúast í kringum skepnurnar, en auk hrossanna á hann 16 kindur. Á veturna er hann meira á Akureyri þar sem hann á hesthús í Breiðholtshverfinu. En hvað á Stefán mikið af hrossum í dag? Það kemur skrýtinn svipur á hann og undirritaður skynjar að við spurningunni fáist ekkert svar. „Það var alltaf verið að spyrja mig hvað ég ætti mikið af hrossum þegar ég kom fyrst til Akureyrar en ég svaraði því aldrei. Loks ákvað ég að svara eftir bestu vitund og sagði að þetta væri svona rúmlega kílómetri af hrossum þegar þau skrolluðu sig á eftir hvoru öðru. Í dag nær þetta ekki kílómetra.“

Þrátt fyrir háan aldur er Stefán hörkutól á hestbaki og góð er sagan sem blaðamanni var sögð af honum og gerðist í sumar. Nokkrir menn voru saman í rekstri og þegar snúa átti við með hrossin lá Stefán undir hrossinu sem hann sat. Héldu menn að hann hefði stórslasað sig og hlupu að honum en þá sagði Stefán hinn rólegasti: „Hann ætlaði að vera með einhverja helvítis stæla þannig að ég sneri hann bara niður!“

Stefán ætlar að halda ótrauður áfram. Eftir áramótin liggur fyrir að taka nokkur tryppi á hús sem þarf að spekja og „vinna aðeins í“ eins og Stefán orðar það. Við kveðjum þennan merka mann, sem vonandi á eftir að upplifa margar hestaferðir í Austurdalnum sínum á komandi árum.