sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Hraunar bætir fjöður í hatt sinn

Jens Einarsson
2. júní 2010 kl. 09:52

Fjögra vetra dóttir hans með 8,41 í aðaleinkunn

Hraunar frá Efri-Rauðalæk bætti skrautfjöður í hatt sinn þegar fjögra vetra dóttir hans, Elva frá Sobacka, hlaut 8,41 í aðaleinkunn á kynbótasýningu á Strömsholm í Svíþjóð fyrir skömmu. Sýnandi Heimir Gunnarsson. Elva hlaut 8,40 fyrir sköpulag og 8,41 fyrir kosti. Hún fékk 9,0 fyrir framhluta, fætur, vilja, og fegurð í reið. Þessi árangur Elvu er kærkominn fyrir Hraunar, sem nú er ellefu vetra og ekki seinna vænna að afkvæmin láti segja til sín. Þess ber þó að geta að Hraunar var ekkert notaður tveggja vetra og aðeins þrjú afkvæmi fæddust undan honum þriggja vetra hér á landi. Hann á ekki nema 85 skráð afkvæmi.

Til gamans má geta þess að Elva er í móðurætt náfrænka Garra frá Reykjavík. Hún er undan Svölu frá Solbacka, sem er undan Djörfungu frá Gunnarsholti, sem er móðir Ísoldar frá Gunnarsholti. Ísold er móðir Garra. Svala er undan Sval frá Glæsibæ, sem á mörg frábær afkvæmi í Svíþjóð og er faðir gæðingsins Gýmis frá Vindheimum, sem stóð efstur alhliða gæðinga á LM1990 á Vindheimamelum.